Reðursafnið
Hið Íslenzka Reðasafn er væntanlega hið eina sinnar tegundar í heiminum, þar sem saman hefur verið safnað reðum af allri spendýrafánu eins lands.
Reðurfræði eru aldagömul vísindi sem til þessa hefur lítt verið sinnt á Íslandi, nema þá sem afleggjara annarra fræða, t.d. sagnfræði, listfræði, sálfræði, bókmennta og ýmissa lista, svo sem tónlistar og balletts.
Nú er hins vegar unnt að stunda reðurfræði á skipulegan og vísindalegan hátt, þökk sé Hinu Íslenzka Reðasafni.
Hið Íslenzka Reðasafn telur nú 217 reði og reðurhluta af nálega öllum land- og sjávarspendýrum hinnar íslensku fánu. Í safninu eru 56 eintök af 17 tegundum hvala, 1 eintak af bjarndýri, 38 eintök af 7 tegundum sela og rostunga og 120 eintök af 21 tegund landspendýra, eða alls um 220 eintök af 47 dýrategundum, þar með talið eintak af Homo Sapiens. Við þetta bætast loforð fyrir þremur eintökum af tegundinni Homo Sapiens og eru vottfest gjafabréf því til staðfestingar.
Auk þessa er að finna í safninu Þjóðfræðideild með 23 eintökum af 19 tegundum og erlenda deild með 42 eintök af 28 tegundum. Samtals eru því í safninu 282 eintök af 93 tegundum.
Auk hins vísindalega þáttar hefur safnið að geyma um þrjú hundruð listgripa og nytjahluta er tengjast viðfangsefnum safnsins.
SAGA SAFNSINS
Það mun hafa verið í október 1974 að grunnurinn var lagður. Ég var þá skólastjóri Gagnfræðaskólans á Akranesi. Nokkrir kennarar skólans voru í heimsókn hjá mér eitt kvöldið og þá kom til umræðu hvernig Íslendingar hefðu gjörnýtt skepnur sínar fyrr á tímum. All var nýtt, kjöt, ull, innmatur o.s.frv. Leggir og bein voru einnig notuð, garni vafið á leggi, völur og kjálkar sem leikföng. Þá minntist ég þess úr sveitadvöl minni sem barn, að væri bola slátrað var sininni ekki hent heldur var hún hengd upp á þil og þurrkuð og síðan nýtt sem svipa eða keyri. Ég sagði að gaman væri að eiga svona sin til minningar um gamla daga. “Nú ber vel í veiði,” sagði einn kennaranna. “Á morgun fer ég vestur á Snæfellsnes að slátra fjórum bolum. Viltu fá gripina?” “Já takk”, sagði ég. Svo birtust sinarnar og ég fékk þær sútaðar, gaf vinum mínum þrjár en hélt einni sjálfur.
Meðal kennara skólans voru nokkrir sem unnu í Hvalstöðinni á sumrin og eftir fyrsta eintakið tóku þeir að færa mér hvalskaufa, væntanlega til að stríða mér. Ég verkaði þá á ýmsa vegu og brátt kviknaði hugmyndin að safna þessu líffæri af sem flestum íslenskum spendýrum.
Eintökum fjölgaði hægt í byrjun og árið 1980 voru þau 13 talsins, fjögur af hvölum og níu af landspendýrum. Árið 1990 voru þau orðin 34 og þegar safnið opnaði í Reykjavík í ágúst 1997 voru eintökin samtals 62. Vorið 2004 var safnið flutt til Húsavíkur.
Safnið flutti aftur til Reykjavíkur á haustdögum 2011 og er nú til húsa að Laugavegi 116, Viðbrögð gesta hafa yfirleitt verið afar jákvæð og ríflega 100 greinar um safnið hafa birst í blöðum og tímaritum í 26 löndum auk fjölda útvarps- og sjónvarpsviðtala. Fjöldi gesta hefur aukist jafnt og þétt og var rúmlega 13.000 sumarið 2011.
STOFNANDINN
Stofnandi safnsins, Sigurður Hjartarson (f. 1941), er sagnfræðingur með BA- próf frá Háskóla Íslands og magisterspróf í sögu Rómönsku Ameríku frá Háskólanum í Edinborg, Skotlandi. Hann starfaði sem skólastjóri og kennari í 37 ár, síðustu 26 árin sem sögu- og spænskukennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð í Reykjavík. Hann lét af störfum 2004 og flutti til Húsavíkur. Eftir hann liggja um 20 ritverk, frumsamin og þýdd, einkum um sögu Rómönsku Ameríku, þ.m.t. kennslugögn í sögu og spænsku.
SAFNSTJÓRINN
Safnstjórinn Hjörtur Gísli Sigurðsson hætti störfum sem lagerstjóri til þess að taka við safni föður síns síðla árs 2011. Hann flutti af því tilefni safnið frá Húsavík og opnaði það á besta stað í miðborg Reykjavíkur. Hjörtur hefur endurskipulagt safnið að kröfu nýrra tíma og fært framsetningu og sýningaraðstöðu safnsins á hærra plan.
Hjörtur er heimshornamaður sem ólst upp í mörgum löndum og hefur ferðast víða um heim. Fyrst og fremst er hann þó íslenskt náttúrubarn sem gengur um fjöll og firnindi í leit að bráð sem hann verkar og eldar af mikilli ástríðu og snilld. Sem sonur stofnandans telst hann einkar hæfur til þess að sinna reðurfræðum framtíðarinnar.