Fjölþætt starfssemi með vandaða vöru

IMG_0589

Inga Bryndís Jónsdóttir og Kristín Sigurðardóttir byrjuðu með Magnolíu í heimahúsi á Laufásveginum fyrir rúmum þremur árum. Fyrir um ári síðan fluttu þær starfsemina og opnuðu verslunina í fallegu steinhúsi á Skólavörðustíg 38. Magnolia er verslun fyrir fagurkera með margvíslegum vörum fyrir heimilið.

“Í rauninni erum við með allt fyrir heimilið. Við erum að vinna mikið með arkitektum og öðrum aðilum í alls konar hugmyndavinnu og ráðgjöf sem við veitum. Svo framleiðum við sjálfar eigin hönnun, t.d. borðstofuborð og konsúlaborð, bakka og alls konar hluti hér í versluninni sem við teiknum sjálfar og látum smíða og gera hér heima. Svo erum við með Tine K, sem er okkar aðal merki. Hún er danskur hönnuður sem við flytjum inn. Svo flytjum við inn hluti sem við veljum frá ýmsum litlum fyrirtækjum víðsvegar að frá heiminum, svona sérvitringum sem eru að gera eitthvað skemmtilegt. Þannig við erum að raða saman og búa til okkar heilstæðu línu.”

Það var búið að vera draumur þeirra frá byrjun að hafa verslunina á Skólavörðustíg og því var það mikið gleðiefni að finna húsnæði þar. Starfsemi Magnoliu er margslungin og hugmyndagleðin í fyrirrúmi, en stefnan samt sem áður mjög skýr varðandi gæði og fegurðargildi hlutanna. Inga og Kristín flytja inn vörur og framleiða sem seldar eru á heimili og í fyrirtæki hér heima en útflutningur og sendingar til viðskiptavina erlendis er í örum vexti hjá þeim.

“Okkur langaði alltaf að vera hér, því Skólavörðustígurinn er algjörlega okkar gata. En við ákváðum bara að byrja rólega, taka litlu skrefin fyrst og sjá hvernig þetta þróaðist. Við höfum frá byrjun unnið mikið með arkítektum og eigum okkur hóp fastra viðskiptavina hér heima. En nú erum við komin með nýjan og vaxandi markhóp erlendis og erum að afgreiða mikið af pöntunum til útlanda. Í raun erum við búnar að búa til og hanna okkar eigin línu, en notum náttúrulega aðra hönnuði eins og Tinu K sem grunn, sem við smíðum svo utan um alls konar hluti úr eigin framleiðslu. En við munum örugglega gera meira af eigin hönnun og framleiðslu í framtíðinni.”


Eigin framleiðsla Magnoliu felst helst í húsgögnum en þær Inga og Kristín fást einnig við textíl, setja upp púða og rúmteppi, gera bakka og stjörnur og fyrir jól framleiða þær kransa sem þær hanna, auk jólaskrauts. Eins gera þær jólaskreytingar og blómaskreytingar fyrir verslanir og heimili. En myndi það ekki teljast sjaldgæft að starfsemi eins lítils fyrirtækis sé svo ákaflega fjölþætt? Og hvað er svo næst á döfinni hjá Magnoliu?

“Núna þessa dagana erum við mest að vinna með vorlínuna. Fyrir jól erum við eiginlega að vinna allan sólarhringinn. Svo hægist um mánuðina á eftir. En við erum strax byrjaðar að vinna í næstu jólalínu, því við þurfum alltaf að vera nokkrum skrefum á undan. Svo erum við mikið í innlitum hjá fólki á þessum árstíma. Ég hef alltaf haft þörf til að vera skapandi og hef öðlast mikla reynslu við að gera upp gömul hús í gegnum tíðina með manninum mínum. Þetta er svona ástríða hjá manni sem maður verður að þjóna. Kristín er viðskiptafræðingur þannig að hún sér um þá hlið svo við vinnum mjög vel saman, sem er mjög dýrmætt. Það svo skemmtilegt að geta leyft sér að vera svolítið sérvitur í þessu fagi. Við höfum aldrei farið eftir því sem aðrir ráðleggja okkur, heldur alltaf fylgt okkar innsæi og hjarta. Það skiptir miklu máli. Vissulega er það óvenjulegt að vera að fást við svona marga hluti í einu en þetta hefur einhvern vegin bara þróast svona. Það er eins og lífið búi til farveg fyrir mann og svo kemur eitthvað nýtt inn eða manni dettur eitthvað nýtt í hug og maður tekur bara á móti og sinnir því.”

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.