Eftir vel heppnaða Októberhátíð og Bleikan fimmtudag í miðborginni brestur á með hinum árlega stóra Kjötúsúpudegi á Skólavörðustíg n.k. laugardag 25.október. Þetta er í tólfta sinn sem kaupmenn á Skólavörðustíg sameinast um þennan skemmtilega dag sem jafnan ber upp á fyrsta vetrardag.
Alls verður boðið upp á kjötsúpu á fimm stöðum á Skólavörðustígnum og það eru margir af fremstu matreiðslumönnum landsins sem gefa vinnu sína á þessum degi. Líkt og venjan hefur verið undanfarin ár mun Úlfar Eysteinsson ausa á fyrstu diskana fyrir fanga Hegningarhússins á Skólavörðustíg.
Dagskráin hefst kl. 14 og stendur fram til kl. 16. Boðið verður upp á fjölmörg skemmtatriði víðs vegar um Skólavörðustíg, meðal annars mun Steindór Andersen kvæðamaður flytja rímur í verslun Eggerts feldskera. Strax að loknum hátíðahöldum á Skólavörðustígnum verður keppt í hrútaþukli á veitingastaðnum KEX við Skúlagötu.