Nóvember gengur í garð um helgina. Laugardaginn 1.nóvember verður Langur laugardagur í miðborginni og borgin fyllist af töfrandi tónum í aðdraganda Iceland Airwaves sem er að hefjast og skartar ótrúlegum fjölda tónlistarfólks hvaðanæva úr heiminum.
Þúsundir tónlistarunnenda flykkist jafnan til landsins af þessu tilefni og hátíðin í ár verður fjölmennari en nokkru sinni – á áttunda þúsund gesta munu bera Airwaves armböndin að þessu sinni.
Airwaves er orðið svo þekkt vörumerki að framleiðendur um allan heim keppast við að skíra vörur sínar eftir hátíðinni. Þannig er til Airwaves brillíjantín, Airwaves bíll, Airwaves tyggjó, Airwaves smokkar og svo mætti lengi telja (djók!).
Meðfylgjandi myndir eru allar af varningi frá hinum rótgróna tyggjóframleiðanda Wrigleys sem hefur nákvæmlega ekkert með Iceland Airwaves að gera að öðru leyti en því að næsta fullvíst má telja að stór hluti gesta hátíðarinnar japli á tuggugúmmíi frá Wrigleys.