Hverfisgata formlega opnuð á laugardag kl. 13:00

Búið er að opna Hverfisgötu í Reykjavík að nýju. Segja má að gatan hafi tekið algjörum stakkaskiptum en framkvæmdir hafa staðið yfir frá því í fyrra. Gatan verður formlega opnuð næsta laugardag klukkan 13 með fræðslugöngu sem Hjálmar Sveinsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, og Guðjón Friðriksson sagnfræðingur leiða.

„Við ætlum að horfa til fortíðar og framtíðar. Guðjón gerir fortíðinni og sögunni skil og Hjálmar gerir framtíðarsýninni skil,“ segir Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar.

Gengið verður frá Safnahúsinu við Hverfisgötu 15 að Hverfisgötu 115. Borgarstjórinn mun að göngu lokinni flytja ávarp og boðið verður upp á heitt kakó og léttar veitingar.

Á þessu ári hafa framkvæmdir staðið yfir frá Vitastíg að Snorrabraut. Skipt hefur verið um allar lagnir í götunni, lýsing endurnýjuð og allt yfirborð götu og gangstétta. Þá er búið að setja hita í gönguleiðir, hjólareinar og upphækkuð, steinlögð gatnamót.

Samgöngur eru því umtalsvert betri en Strætó kemur þó ekki til með að aka um Hverfisgötuna, í það minnsta ekki eins og sakir standa nú.

„Strætó hefur gefið það út að þeir ætli ekki að breyta sínum áætlunum fyrr en búið er að taka alla götuna í gegn. Það er alveg frá Hlemmi og niður að Lækjargötu. En nú liggur það fyrir að það verður ekki farið í frekari framkvæmdir fyrr en 2016. Það helgast af því að það eru aðrar framkvæmdir á áætlun í miðborginni,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar.

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík