Yoko Ono: Ein saga enn…

Yoko ono er leiðandi myndlistarmaður á sviði tilrauna og framúrstefnu. Hún er iðulega tengd við listhreyfingar sem mótuðust á sjöunda áratugnum, eins og konseptlist, gjörninga, flúxus og viðburðalist (ein fárra kvenna sem tók virkan þátt í þeim). Fyrst og fremst hefur hún þó verið frumkvöðull í að endurskoða listhugtakið, draga listaverkið sem hlut í efa og aukinheldur að brjóta niður hefðbundna múra milli ólíkra listgreina. Með verkum sínum hefur Ono myndað nýstárleg tengsl við áhorfendur þar sem hún býður þeim að taka þátt í sköpun þeirra. Þá sameinar hún tvo heima – hinn austræna og hinn vestræna – sem virka eflandi og styrkjandi hvor annan í samfelldri nýsköpun.

Sýningunni Ein saga enn… er ætlað að varpa ljósi á grunnþætti í yfirgripsmiklum og fjölbreyttum listaferli Yoko Ono – ferðalagið gegnum sjálfa hugmyndina um myndlist, með kraftmiklum félagslegum og pólitískum undirtóni. Annars vegar eru fyrirmælaverkin sem vekja spurningar um huglæg undirstöðuatriði að baki hverju listaverki og beina athyglinni að forgengileika þess um leið og þau afhelga listhlutinn, auk þess sem þátttöku áhorfenda er krafist til að verkin verði að veruleika. Hins vegar eru frásagnirnar sem tjá ljóðræna og gagnrýna sýn Ono.

Haustið 1955 skapaði Ono fyrsta fyrirmælaverk sitt sem hét Lighting Piece (Kveikiverk): ,,Kveiktu á eldspýtu og horfðu á hana brenna til enda.” Það var þó ekki fyrr en 16. júlí 1961 sem hún hélt sýningu á fyrirmælamálverkum sínum og -teikningum í AG galleríi George Maciunas í New York. Þar voru sýnd nokkur verk byggð á japanskri skrautritun en mesta athygli vöktu verk sem hengd voru á veggina eða lágu á gólfinu og áhorfendum bauðst að meðhöndla samkvæmt fyrirmælum listakonunnar. Þeim var falið að stíga á þau eða kveikja í, svo dæmi séu tekinn um gjörðir sem ætlað var að fullkomna sköpunarverkið. Ono var sjálf í galleríinu, tók á móti gestum, sýndi þeim verkin og útskýrði eðli þeirra og hlutverk áhorfandans.

List Ono er áskorun til hvers listasafns um að endurskoða hlutverk sitt og takmörk. Hún hvetur safnið til að endurskapa samræðuna við listamanninn og almenning. Ein saga enn… býður upp á úrval af fyrirmælaverkum Ono frá síðastliðnum sex áratugum. Verkin eru sýnd í safninu, mótuð af hönnun hússins og starfsháttum stofnunarinnar, og öðrum verkum er miðlað á samfélagsmiðlum. Þessi framsetning á fyrirmælaverkum, ásamt ljósmyndum og kvikmyndum sem dreift er til almennings fyrir tilstuðlan veraldarvefsins og snjalltækja, undirstrikar forgengilega og óupphafna eiginleika þeirra.

Þótt list Yoko Ono sé opinn og margþætt, drifinn áfram af þörf fyrir samvinnu með öðrum, heldur hún alltaf kjarna sínum sem er ófrávíkjanlegur. Að miklu leyti fást verk hennar við eðli sjálfrar listarinnar, auk trúar hennar á að okkar bíði betri tíð, ,,ef við bara óskum þess nógu heitt.”

Gunnar Kvaran sýningarstjóri sér um sýninguna.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Menningarkorts Reykjavíkur.

Dagsetning: 8. okt. 2016 – 5. feb. 2017, kl. 13:00 – 14:00

Staðsetning: Hafnarhús – Listasafn Reykjavíkur, Tryggvagata 17, 101 Reykjavík

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík