Iceland Airwaves

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves byrjaði með þó nokkrum off-venue tónlistaratriðum á mánudaginn 31. október meðal annars á Dillon, KEX Hostel og á fleiri stöðum. Frítt er inn á öll off-venue atriði. Aðal dagskráin, sem borga þarf fyrir byrjar hins vegar í dag, miðvikudaginn 2. nóvember. Iceland Airwaves er tónlistarhátíð sem að jafnaði er haldin í Reykjavík þriðju helgina í október ár hvert. Hátíðin var fyrst haldin árið 1999 og hefur síðan vaxið árlega. Í upphafi var hátíðin hugsuð sem kynningarhátíð á innlendri tónlist, en er í dag talin ein af helstu alþjóðlegu kynningarhátíðum heims á sviði tónlistar. Fjölmargar hljómsveitir, innlendar sem erlendar, hafa vakið alþjóðlega athygli eftir að hafa leikið á Iceland Airwaves. Má þar nefna The Rapture, Hot Chip, The Bravery, Sigur Rós og Jakobínarína. Mikill fjöldi af nýjum hljómsveitum munu skemmta fólki á hátíðinni í ár. Hátíðin sjálf spannar yfir fimm daga, frá miðvikudegi til sunnudags. Mikill fjöldi blaðamanna og starfsmanna tónlistarbransans mætir jafnan á Airwaves hátíðina. Dagskrá hennar nýtur oftar en ekki mikillar hylli innlendra sem erlendra blaðamanna, David Fricke einn af ritstjórum Rolling Stone kallaði hana ,,svölustu tónlistarhátíð heims”. Á meðal tónlistaratriða á hátíðinni í ár eru Emmsjé Gauti, Mammút og Björk. Iceland Airwaves er einnig þekkt fyrir mikla og skemmtilega stemmningu og eykst hún með hverju ári.

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík