Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum hefur fengið varanlegt aðsetur í nýju húsi sem byggt hefur verið sérstaklega til að hýsa hana. Húsið hefur hlotið nafnið Veröld – Hús Vigdísar, sem var það nafn sem bar sigur úr býtum í sérstakri samkeppni um heiti hússins. Stofnuninni er ætlað að hjálpa til við að viðhalda íslenskunni, auk þess sem ferðamenn geta komið og fundið sitt tungumál.
Vígsluathöfn var haldin í Háskólabíó í dag, þar sem fram kom fjöldi listamanna. Meðal annars Brynhildur Guðjónsdóttir sem söng á sjö tungumálum. Að athöfninni lokinni var svo gengið yfir í nýja húsið undir kórsöng.
Húsið mun verða nágrannahús nýs húss íslenskrar tungu og er lagt upp með að verði góð samvinna milli stofnananna. Starfseminni er ætlað að vera lifandi og opin öllum Íslendingum, ekki síst ungmennum, auk ferðamanna. En einnig mun það hýsa tungumálanám Háskóla Íslands. Húsið er á þremur hæðum, auk jarðhæðar sem tengd er við Háskólatorg undir Suðurgötu. Í húsinu eru fyrirlestrarsalir, upplýsinga- og fræðslusetur og sérstakt heimasvæði tungumála.
Útisvæðið við húsið hefur vakið sérstaka athygli, en það minnir á grískt hringleikahús. Viðurinn utan á húsinu vísar í skógræktaráhuga vigdísar og svalir sem vísa út að hringleikahúsinu vísa í svalirnar á Aragötu, þar sem Vigdís móttók hyllingu fyrst þegar hún hafði verið kosin forseti. Arkitektarnir að baki hönnun hússins eru þeir Kristján Garðarsson og Haraldur Örn Jónsson hjá arkitektastofunni Andrúm.