Stjörnum prýddur Langur laugardagur

Fyrsti laugardagur hvers hefur um áratuga skeið heitið Langur laugardagur í miðborginni, en þá er jafnan meira um að vera en á öðrum laugardögum, verslanir opnar lengur, veitingahús þéttsetnari og viðburðahald með líflegasta móti.

Laugardagurinn 3.júní er óvenju mörgum stjörnum prýddur. Kl. 14:00 mun Högni Egilsson hefja upp raust sína í porti Kex hostels og flytja íslenska þjóðsönginn í aðdraganda æsispennandi viðureignar íslenska kvennalandsliðsins og knattspyrnufélagsins Mjaðmarinnar, allt í nafni UNICHEF.

Þá munu bestu vinir barnanna, þeir Sveppi og Villi opna stórhátíð á Ingólfstorgi á sama tíma, en þar er fagnað 5 ævintýralegum árum WOW fram eftir degi með stórstjörnum á borð við Pál Óskar,Áttunni, Auði, Sturlu Atlas, DJ Ruff o.fl. Sirkus Íslands verður einnig með uppákomur, andlitsmálning verður í boði, lukkuhjól, popp, ís og pylsur svo nokkuð sé nefnt.

Þá er súperstjarna íslenskrar myndlistar í brennidepli í afar metnaðarfullri yfirlitssýningu verka Ragnars Kjartanssonar sem opnuð verður af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra kl. 16:00 í Listasafni Reykjavíkur.
Hannesarholt býður upp á lifandi sígilda tónlist síðdegi í dag og er þá fátt eitt talið.
Screen Shot 2017-06-03 at 09.45.01
Kvöldið er síðan smekkfullt af skemmtilegheitum með Úlfi Úlfi á Húrra, Pálma Sigurhjartarsyni við flygilinn í Græna herberginu og svo mætti lengi telja.

Veðrið er eins og best verður á kosið og tilvalið að ganga í bæinn, vera, versla og njóta alls þess sem miðja höfuðborgarinnar hefur upp á að bjóða.

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík