Hápunktur Sónar í Reykjavík er án nokkurs efa hljómsveitin Underworld sem kemur fram í kvöld í Hörpu. Underworld er ein stærsta hljómsveit heims á sviði danstónlistar og komast fáir með tærnar þar sem hún hefur hælana hvað sviðsframkomu og sjónarspil á tónleikum varðar. Íslendingar fengu að kynnast því þegar sveitin kom fram í troðfullri Laugardalshöll á Debut tónleikum Bjarkar 1994. En síðan þá hefur orðstír Underworld vaxið og fékk sveitin m.a. að koma fram í og leikstýra tónlistarþætti opnunarhátíðar Ólympíuleikanna í London árið 2012.
Sónar fer fram um helgina á fjórum sviðum í Hörpu. Alls er boðið upp á tónleika með rúmlega 50 hljómsveitum og listamönnum á hátíðinni, m.a. í bílakjallara hússins sem búið er að breyta í næturklúbb.