✨ Fálkahúsið og Kokka verðlaunuð fyrir bestu jólaskreytingarnar
Einar Þorsteinsson borgarstjóri afhenti í dag viðurkenningar fyrir bestu jólaskreytingar rekstraraðila í miðborginni í ár. Fálkahúsið hlaut viðurkenningu fyrir fallegustu jólaskreytinguna en verslunin Kokka þótti skarta fegursta jólaglugganum.
Viðurkenningunni er ætlað að hvetja rekstraraðila til að skreyta hjá sér því Reykjavík er jólaborgin og skreytingar skipta miklu máli í því að skapa fallega, hlýlega og jólalega ásýnd í miðborginni.
Fálkahúsið við Hafnarstræti 1-3, þar sem Sæta svínið, Fjallkonan og Tipsy eru til húsa, varð fyrir valinu að þessu sinni fyrir sérlega fallegar skreytingar. Í rökstuðningi vegna valsins segir að hið reisulega Fálkahús í Kvosinni skíni skærar yfir jólahátíðina og myndi góðan samhljóm með skautasvellinu á Austurvelli. „Stílhrein lýsingin dregur fram alla helstu drætti þessa fallega húss sem mun meðal annars ýta undir athygli vegfarenda á sögu og arkitektúr Kvosarinnar ásamt því að færa þeim jólin í hjarta,“ segir í umsögninni.
Bergdís Örlygsdóttir, markaðsstjóri Fálkahússins, segir frábært að fá verðlaun sem þessi. „Við þökkum kærlega fyrir okkur,“ segir hún. „Þetta er mikil hvatning til að halda áfram að skreyta og gera fallegt í borginni okkar. Við hvetjum önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama.“
🎄 Verslunin Kokka við Laugaveg 47 þótti eiga fallegasta jólagluggann að þessu sinni og var rökstuðningur eftirfarandi: „Fíngerður og fagur grenihringur, risavaxið piparkökuhús og piparkökukall sem gægist út um gluggann setja einstaklega hátíðlegan svip á Laugaveg við göngugötuna og ætti að gleðja stóra sem smáa vegfarendur yfir aðventuna.”
Við þökkum fólkinu á bak við þessar fallegu skreytingar kærlega fyrir mikilvægt framlag til fegrunar í miðborginni, sem er sérlega mikið skreytt í ár. Við hvetjum að sjálfsögðu öll til að heimsækja miðborgina og njóta alls sem þar í boði á aðventunni.