„Ingólfstorg er torgið okkar allra; Mótorhjólafólks, hjólabrettafólks, sóldýrkenda, veitingamanna, íbúa, ferðamanna og annarra sem kjósa að heimsækja torgið.“ Þetta segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg, en hópur hjólabrettamanna telja að þrengt sé að þeim sem rennt hafa sér á hjólabretti á torginu.
„Velunnarar Ingólfstorgs, þeir sem búa og starfa nálægt torginu hafa lagt sig fram um það síðan síðla árs 2011 að fóstra torgið, gera það grösugt og blómlegt að hluta, athvarf sem allir geta heimsótt og notið,“ segir í tilkynningu sem Jakob Frímann Magnússon sendi fyrir hönd borgarinnar.
„Undirritaður var á sl. ári samningur milli Reykjavíkurborgar og umsjónaraðila torgsins sem kveður á um fjölþætta starfsemi og athvarf fyrir alla. Mótorhjólamenn njóta torgsins en hafa úr að velja fjölmörgum öðrum svæðum fyrir stærri samkomur. Sama gildir um hjólabrettafólk sem hefur fengið sérsmíðaða aðstöðu á Hljómalindarreit, Laugalækjarskóla, Laugardal og víðar fyrir stærri og fjölmennari viðburði.
Ingólfstorg er eftir sem áður vettvangur til að æfa sig og sýna listir sínar – en með virðingu fyrir öllum þeim sem ekki stunda hjólabrettaíþróttina en kjósa að dvelja á torginu.
Við þurfum að læra að umbera hvort annað og virða þarfir, eigur og óskir hvors annars, jafnt á Ingólfstorgi sem annars staðar í samfélaginu. Það er nóg pláss fyrir okkur öll!“