Sólarstundir í júní voru færri í Reykjavík en þær hafa verið í heil 15 ár og það sem af er júlímánuði hefur lítið ræst úr því, en þeim mun meira rignt og blásið. Ekki er heldur útlit fyrir að breytist strax með lægðunum sem boðaðar hafa verið á færibandi.
Setja út teppi og markísur
„Þessi veðrátta er ekki alveg eins og best verður á kosið,“ segir Gylfi Pétursson, eigandi Café París. „En við leggjumst ekkert í þunglyndi. Það er fínt að gera þrátt fyrir allt og fólk situr þá bara meira inni í staðinn.“ Úti við Café París var jafnan þröngt á þingi hið sólríka sumar 2012 en fyrir vikið stundum hálftómt innan dyra. Nú hefur staðan snúist við.
„Svo er það stundum þannig að það rignir og rignir en allt í einu brestur á blíða og þá fyllist allt um leið. Við reynum líka að bregðast við þessu með því að setja út teppi og markísur fyrir fólk og kerti á kvöldin til að gera huggulegra,“ segir Gylfi.
Gashitarar koma til greina
Björt og hlý sumarkvöld þar sem kvöldsólin varpar geislum á Austurvöll hafa verið fá enn sem komið er og fátítt að völlurinn sé þétt setinn fram á kvöld. Gylfi segir að komið hafi til tals að koma upp gas- eða rafmagnshiturum til að gera útisvæðið vistlegra.
„Við erum ekki komin með það en það er til skoðunar, ef þetta fer ekki að skána. En þangað til verður maður bara að laga sig að þessu.“
Víða á Norðurlöndum eru gashitarar algengir við veitingastaði en fáir bjóða upp á það hér á landi. Andri Björnsson eigandi Vegamóta segir óvíst hvort það borgi sig á Íslandi. „Það þyrfti að kynda svo ansi mikið til þess að ná almennilegum hita, þannig að það hefur ekki verið gert.“
„Það situr enginn úti í þessu veðri“
Ekki var hægt að kvarta yfir aðsókninni á Vegamótum síðasta sumar. Í júlílok 2012 sagði Andri í samtali við Morgunblaðið að erlendir viðskiptavinir hefðu aldrei verið fleiri enda iðaði bærinn af ferðamönnum og útisvæðið væri þéttsetið í sólinni.
Annað er uppi á teningnum núna. „Þetta er frekar slappt sumar. Það að þetta sé sólarminnsti júní síðan 1995 hefur alveg töluverð áhrif á traffík í bænum, maður finnur það. Það hægist bara á öllu og það situr enginn úti í þessu veðri.“
Töluverður munur er á því hvers fólk neytir eftir veðri. Þegar kalt er og blautt fái fólk sér irish coffe eða heitt súkkulaði, en hvítvín og kokteila í sólinni. Aðspurður segir Andri þó tíðarfarið ekki hafa afgerandi áhrif á reksturinn. „Það er bara keypt inn jafnóðum, hingað koma vörur á hverjum degi þannig að það hefur ekki áhrif á okkur.“
Sólstólar- og borð fá hinsvegar að dúsa í geymslunni enn sem komið er. „En þetta er ekki búið ennþá. Um leið og sólin kemur hendum við borðunum út og vonandi verður meiri sól í júlí og ágúst,“ segir Andri og Gylfi er heldur ekki af baki dottinn:
„Ætli það verði ekki bara sumar í september?