Að blessaðri jólavertíðinni aflokinni

Mikil veðurblíða einkenndi síðustu daga fyrir jól og var fólksfjöldinn gríðarlegur sem sótti miðborgina heim á Þorláksmessu. Nokkur dráttur varð á því að Laugavegi væri lokað fyrir bílaumferð að aflokinni Friðargöngu og má vísast rekja það til nýafstaðinna breytinga á þeim sviðum borgarinnar sem annast hafa lokunina til þessa.

Framkvæmda- og eignasvið hefur nú verið lagt niður og nýju  Eigna- og atvinnuþróunarsviði komið á fót í Ráðhúsinu undir stjórn Hrólfs Jónssonar. Umhverfi- og samgöngusvið hefur verið sameinað Skipulagssviði undir forystu Ólafar Örvarsdóttur með aðsetur á Höfðatorgi við Borgartún.

Tveir hápunktar Þorláksmessunnar voru innblásin friðarræða Jóns Gnarr borgarstjóra af svölum Hótel Víkur  sem mæltist afar vel fyrir, og síðar um kvöldið frábærir tónleikar tenóranna þriggja, Jóhanns Friðgeir Valdimarssonar, Garðars Thórs Cortes og Snorra Wium við magnaðan undirleik Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur. Mörg þúsund manns hlýddu agndofa á þessa frábæru listamenn fara með himinskautum í flutningi sínum.

Almennt er gott hljóð í rekstraraðilum að aflokinni jólavertíð, þrátt fyrir að pyngjur stórs hluta landsmanna virðist nú nokkuð léttari en áður. Skyldusparnaði hefur þegar verið varið til útgjalda og “hagvaxtarkynslóðin” , fólkið á bilinu 25-45 sem almennt hefur haft þokkaleg fjárráð er nú flest allþjakað af vaxandi skattlagningu hins opinbera. Hækkað verðlag sem slegið var upp í Kastljósi í desemberbyrjun á alfarið rætur að rekja til veikrar stöðu íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum og því hefur innkaupaverð innfluttrar vöru hækkað og álagningu í mörgum tilfellum verið haldið í skefjum til að mæta því. Þannig hafa kaupmenn og rekstraraðilar reynt að koma til móts við viðskiptavini.

Um 30%  fjölgun erlendra ferðamanna hefur mælst milli ára á síðasta ársfjórungi 2012 og er það vel. Stöðug aukning þeirra virðist vera framundan og fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á gistirýmum hefur sem betur fer verið frestað til september 2013. Þannig gefst rekstraraðilum í ferðaþjónustu a.m.k. kostur á að kynna ný verð sem þá innibera virðisaukaskattshækkunina, a.m.k. að hluta.

Staða íslensku krónunnar gerir það þó að verkum að Ísland verður áfram fýsilegur kostur fyrir þá sem vilja leggja land undir fót. Sérstaða og sjarmi miðborgar Reykjavíkur gerir það sömuleiðis að verkum að hún verður vafalítið áfram fjölsóttasti blettur Íslands.

 

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík