Aðventan tilfinningalega mikilvægust

Lárus Jóhannesson er annar tveggja eigenda hljómplötuverslunarinnar og útgáfunnar 12 tóna, en 12 tóna búðin er löngu orðin rótgróin stofnun á Skólavörðustígnum sem á sér fasta viðskiptavini, bæði hérlenda og erlenda. Fjallað hefur verið um verslunina og þá alúðlegu og persónulegu þjónustu sem hún býður uppá í margvíslegum miðlum og tónlistartímaritum víða um heim. Umsvifin í búðinni eru árstíðabundin og standa hæst að sumri, kringum Airwaves hátíðina og svo auðvitað í desember, sem er handan við hornið.

Jólatörnin hefst yfirleitt þannig að fólkið sem er að senda músíkgjöf yfir hafið fer að koma til okkar. Það eru fyrstu jólakúnnarnir. Og það er oftar en ekki eldra fólk, sem vill bara klára málið og koma gjöfunum út til ættingja sinna í tæka tíð. Og svo eru náttúrulega þeir sem koma að sækja jólamúsík í vinnustaðapartí eða sem vinninga á vinnustöðum. Svo þannig byrjar vertíðin. Svo þegar jólavísatímabilið kemur fer verslunin af stað fyrir alvöru.”

Þeir Lárus Jóhannesson og meðeigandi hans Jóhannes hófu reyndar starfsemi 12 tóna með því að bjóða fyrirtækjum lista af hljómplötum til innkaupa í gjafir fyrir starfsfólk og var innkoman af því grundvöllurinn fyrir stofnun verslunarinnar 1998, sem var fyrst á horni Grettisgötu og Barónsstígs áður en hún flutti í húsnæðið á Skólavörðustíg árið 2001.

“Aðventan er auðvitað mikilvægasta tímabilið fyrir okkur tilfinningalega og í gamla daga, fyrir aldamót, þá var það þannig að það sást næstum á ársreikningnum hvernig veðrið var á Þorláksmessu. En núna er þetta auðvitað gjörbreytt út af ferðamennskunni og sumarið orðið stærra en jólin. En reyndar hefur það líka vaxið að hér séu ferðamenn að vetri til og um jólin og það er samdóma álit þeirra sem ég hef rætt við sem eru í verslun á þessu svæði okkar að vetrarferðamennirnir gefi betur af sér, enda oftar efnaðra fólk ”

Starfsumhverfi tónlistarmanna, útgefenda og plötubúða hefur breyst hratt á þeim tíma sem 12 tónar hafa starfað og átt frekar undir högg að sækja. Á sama tíma hefur straumur ferðamanna hingað margfaldast, en áhugi fólks á að sækja okkur heim kemur ekki síst til vegna áhuga fólks á íslenskri tónlist.

,, Í mínum huga auðgar ferðamennskan allt mannlíf hérna. Að fólk kvarti og kveini undan ferðamannastraumnum er ágætis merki um hve stutt Íslendingar hafa búið í borg. Við erum svo miklir sveitamenn. Það getur ekki hver og einn sem býr í miðborginni verið með risastórt svæði útaf fyrir sig, parkerað þar sem honum sýnist og ætlast til þess að allir séu farnir að sofa klukkan 11”

Skemmst er frá því að segja að fjallað er um 12 tóna í máli og myndum í ljósmyndabókinni Record stores eftir þýska ljósmyndarann Bernd Jonkmanns, sem í ljósi áhuga síns á tónlist og plötusöfnun, hefur ferðast um allan heim til að mynda plötubúðir. Bókin kom út í samstarfi við Seltman + Söhne í sumar. Meðal þess sem fram kemur í þeirri bók er sú áhugaverða staðreynd að á meðan í Kaupmannahöfn er ekki eina einustu plötubúð að finna lengur eru fjórar starfandi plötubúðir í Reykjavík. Af því mætti draga þá ályktun að plötubúðamenningin, samtvinnuð tónlistarlífinu sé í miklum blóma og vettvangurinn alþjóðlegur.

,,Í okkar tilfelli, þó okkar búð hafi streist á móti og hafi frekar vaxið en hitt, þá er trendið þannig að salan á fýsískum eintökum farið niðurávið hérlendis, þó vínylplötur hafi komið aftur og vegið á móti því að einhverju leiti. Þannig að það að fá gesti að utan gerir gæfumuninn fyrir okkur. Ekki bara í peningum heldur er það gefandi líka að fá kynnast fólki hvaðanæva að úr heiminum sem talar allt svo fallega um Ísland. Það kennir manni að meta landið sitt. “

774444
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík