Atmo & Vitahverfi lofa góðu

Tekið var til þess í aðdraganda jóla að hin nýja stórverslun ATMO sem nýverið var opnuð að Laugavegi 91 virðist hafa aukið streymi viðskiptavina að þessum austasta hluta Laugavegarins.

Fjölmargir af fremstu hönnuðum landsins bjóða þar vöru sína auk þess sem hinn geysivinsæli heilsufæðisstaður matseljunnar Sollu, GLÓ, hefur opnað þar miðborgarútibú við mikinn fögnuð þeirra sem búa og starfa á svæðinu.

Þetta forna höfuðvígi hátískunnar sem áður hýsti 17-veldið er því aftur orðið það aðdráttarafl sem stuðlaði að eðlilegu  jafnvægi á þessari lengstu og mikilvægustu verslunargötu landsins.

Þá var Hlemmur vinsæll áfangastaður á aðventunni, en þar var boðið upp á tónleikaröðina Hangið á Hlemmi þar sem margir af fremstu tónlistarmönnum landsins létu ljós sitt skína undir gríðarlega ljósríkum jólaskreytingum.

Þá hafa rekstraraðilar í kring um Vitastíg lagt á ráðin með að kynna sitt svæði sérstaklega sem skapandi svæði. Svæðið hefur hlotið sæmdarheitið Vitahverfi – skapandi svæði. Á ensku er heitið: Lighthouse Village – the Creative Quarter. Ráðgert er að merkja svæðið sérstaklega og mála ljóspollana á Laugaveginum í einkennislitum vita. Upprunalegi vitinn sem Vitastígur dregur nafn sitt af verður endurreistur en hann er skammt frá horni Hverfisgötu og Vitatsíg, í baklóð Kex hostel sem verið er að fegra um þessar mundir.

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.