Borgarstjóri Árósa tekur borgarstjórann í Reykjavík til fyrirmyndar

Jacob Bundsgaard, borgarstjórinn í Árósum, segist afar hrifinn af hugmynd Jóns Gnarr, starfsbróður síns í Reykjavík, um að flytja skrifstofu borgarstjóra í Breiðholt og gæti hugsað sér að fara svipaðar leiðir og færa skrifstofu sína út fyrir miðborgina. Þetta kemur fram í viðtali sem hann veitti Fréttablaðinu og hefur vakið mikla athygli.

Bundsgaard var staddur hér á landi í heimsókn á dögunum og sagði aðspurður í samtali við Fréttablaðið að honum litist vel á að flytja skrifstofu sína til Gellerup, sem er það hverfi í Árósum þar sem hlutfall innflytjenda er hæst. Það líður fyrir ímynd sína og þar hafa glæpir og ýmis önnur samfélagsmein verið landlæg um árabil.


„Það er hvetjandi að sjá hvernig borgarstjórinn ykkar færði sig til hverfis sem er að takast á við ýmsar áskoranir og það er góð leið til að efla áherslu á þau málefni,” segir Bundsgaard og bætir því við að það sé til margs að vinna að efla hverfin.

Bundsgaard segir margt líkt með borgunum tveimur, til dæmis í skólamálum. Breytingarnar í skólakerfinu í Reykjavík síðustu misseri, þar sem margar stofnanir voru sameinaðar, vöktu hörð viðbrögð en Bundsgaard segir slíkt viðbúið þegar skólamál séu annars vegar. Hann þekkir þessi mál af eigin raun því hann stýrði skólamálum í Árósum á árunum 2005 til 2006 þegar innleiddar voru miklar sameiningar á yfirstjórnum skóla annars vegar og leikskóla hins vegar. Til dæmis voru leikskólarnir 360 árið 2005 en eru nú 81, en breytingarnar ollu miklum deilum á sínum tíma.
„Fólk hefur eðlilega áhyggjur af útkomunni þegar breytingar eiga sér stað. Okkar reynsla er þó góð og það eru ekki deilur um málið lengur. Fólk er líka ánægt með að með stærri einingum er til dæmis orðið auðveldara fyrir hvern skóla eða leikskóla að sækja sérfræðiaðstoð og samvinna hefur aukist til muna.” Bundsgaard segir að tvö til þrjú ár hafi tekið að lægja öldurnar en nú sé mikill meirihluti foreldra ánægðir með starfið.

Árósar fóru ekki þá leið að sameina leikskóla og grunnskóla, vegna mismunandi löggjafar um stigin tvö, en þó er víða afar náið samstarf og jafnvel í sama húsnæði, að sögn Bundsgaards.
„Við fórum aðeins öðruvísi leiðir en Reykjavík en við munum fylgjast með því hvernig málin þróast hér og sjáum hvort við getum ekki lært eitthvað af því sem Reykjavík er að gera.”546907_10151337107871075_419654836_n

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.