Borgarstjóri opnar Sumargötur í barnafans

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði kl. 11:00 í dag hinar árlegu Sumargötur á mótum Skólavörðustígs og Bergstaðastræti og fékk til liðs við sig góðan og glaðan hóp barna af Grænuborg. Þá voru slagverksmenn af ýmsu þjóðerni mættir til að miðla hrynþokka sínum og gleði af þessu tilefni.

Sýning á listaverkum barnanna úr Grænuborg var einnig opnuð í morgun og munu ýmsir leikskólar suðvesturhornsins fá tækifæri til að skarta listaverkum nemenda sinna á þessari glæstu og fjölförnu götu á komandi mánuðum. Áhugasamir sýningaraðilar geta sent línu á: [email protected] eða [email protected]

Sumargötur voru einnig opnaðar á takmörkuðum hluta Laugavegar í dag, frá Vatnsstíg að Bankastræti og jafnframt í Pósthússtræti við Austurvöll. Verða Sumargötur þannig opnar alla daga frá kl. 11:00 að morgni frá 15.maí til 15.september. Gert er ráð fyrir að akstri aðfanga að Sumargötum ljúki kl. 11:00 og er rekstraraðilum bent á að gera vörudreifendum sínum það ljóst hið fyrsta.

Upphaflega stóð til að Sumargötur yrðu opnar 1.maí til 1.október, en borgarráð ákvað að taka tillit til þeirra sjónarmiða um lengd verkefnisins sem fram komu í Gallup könnun sem Miðborgin okkar lét gera í apríl sl. Var Sumargötuverkefnið stytt um einn mánuð að fengnum niðurstöðum þeirrar könnunar.

Þá hefur Umhverfis- og samgöngusvið ákveðið að veita tiltekinni fjárupphæð til að gæða Sumargötur auknu lífi, s.s. með sérstökum viðburðum og skreytingum, auk þess sem rekstraraðilum verður gefinn kostur á að sækja sér pottablóm til fegrunar nærumhverfis síns, strax og næturfrosti léttir og nægilega öruggu meðalhitastigi er náð sem gerir pottablóm að raunhæfum valkosti.

dagur 2Afhending pottablómanna verður tilkynnt rekstraraðilum Miðborgarinnar okkar á næstunni með sérstökum tölvupósti.

 

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík