Dagur borgarstjóri á opnum félagsfundi um miðborgarmál

Jólin nálgast. Áður ráðgerðar framkvæmdir í miðborginni eru í biðstöðu vegna fornleifafunda, aðrar framkvæmdir loka fyrir umferð á helstu verslunargötum. Erlendum ferðamönnum fjölgar gríðarlega frá ári til árs og 95% þeirra sækja miðborgina heim. Hvernig ætlum við að mæta þörfum 2 milljóna ferðamanna eftir 3 ár? Á meðan bílum fjölgar, fækkar bílastæðum og almenningssamgöngur miðborgar eru í biðstöðu. Hvað bíður okkar í miðborginni á næstu mánuðum og misserum?

Þetta og ótal margt fleira verður til umræðu á opnum félagsfundi Miðborgarinnar okkar með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra fimmtudagskvöldið 9.október kl. 20:00 á Bergsson veitingahúsinu í Sjávarklasanum, Grandagarði 16.

Auk þess að taka á móti Yoko Ono í aðdraganda Friðarsúlutendrunar, ávarpa ráðstefnugesti Meet in Reykjavík, stýra árshátíð gamla menntaskólans síns og sinna hefðbundnum borgarstjórastörfum, sækir borgarstjóri okkur heim á Grandann þetta kvöld og kunnum við honum góðar þakkir fyrir að bæta miðborgarfundi við það fjölmarga sem þegar liggur fyrir þennan dag.

Borgarstjóri kynnir það helsta sem á döfinni er  auk þess sem sérstakur gestur fundarins , Áshildur Bragadóttir, nýráðinn forstöðumaður Höfuðborgarstofu, ávarpar fundinn stuttlega.

Borgarstjóri tekur síðan þátt í umræðum um miðborgarmál og svarar spurningum fundarmanna.

Fundarstjóri er Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar.

Boðið verður upp á léttar veitingar að fundi loknum og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

10658911_10152696141745042_6414142926055123722_o

 

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.