Listasafn Reykjavíkur býður nú upp á listasýningu eftir Erró, en hún kallast Stríð og friður. Sýningarstjóri er Daniella Kvaran. Sýningin mun standa á fjórum fótum allt til 22. jan. 2017. Það er ekki til neinn draumastaður í list Errós þar sem lífið er ljúft og rólegt, laust við hávaða og átök stríðsins. Eitt af fyrstu verkum hans nefnist Stríðið. Það er frá árinu 1950, unnið með blandaðri tækni, bleki og vatnslitum og strax þá er hann að vinna með efnivið eins og ofbeldi, eyðileggingu og dauða. Fæðingarland listamannsins, Ísland, er í miðju verkinu og fyrir ofan lítið hringlaga heimskort í miðju verkinu og aftan við það sjást útlínur atómsprengju, mitt á milli austurs og vesturs. Þessi gríðarstóra hnattsprengja sendir frá sér banvæna geisla, alsetta beinagrindum.
Það stríð sem er efniviður þessarar teikningar er óhjákvæmilega síðari heimsstyrjöldin en hún hafði mikil áhrif á Erró þegar hann var ungur maður og hún hefur í hans augum alla tíð verið táknmynd hins ílla auk útrýmingar nasista á gyðingum og kjarnorkusprengjunni sem varpað var á Hiroshima. En við það bætist svo Kóreustríðið sem þá var nýskollið á og heimsfriðurinn er í slíkri hættu að menn óttast að þriðja heimsstyrjöldin sé yfirvofandi, jafnvel að stefni í heimsendi verði kjarnorkusprengjum beitt. Sá skuggi kjarnorkusprengjuárásar sem lá yfir öllu gervallt kalda stríðið og jafnvel lengur birtist seinna í verkum listamannsins, allt frá því hann gerði grátbroslegar teikningar á borð við Sur-Atom(Reykjavík, 1957) og Radioactivity(Ísrael, 1958).
Stríð, öll stríð, bæði heit og köld, á tuttugustu og tuttugustu og fyrstu öldinni, allt frá síðari heimsstyrjöldinni til Persaflóastríðsins, þar á meðal Alsírstríðið, Kúbudeilan, Víetnamstríðið, borgarastríðið í Suður-Afríku, stríðið í Afganistan og Júgóslavíu, hafa verið viðfangsefni Errós allan hans feril. Allt frá árinu 1964 víkur listamaðurinn að þeim beint eða óbeint með myndum af neysluvenjum hversdagsins(auglýsingum, fréttamyndum, teiknimyndum, áróðursplakötum, teikningum úr dagblöðum) sem hann tekur með sér hvaðanæva úr heiminum og setur saman í klippimyndir og síðan í málverk og býr þannig til opnar, flóknar og hárfínar frásagnir. Erró er virkur áhorfandi og fjallar með gangrýnum hætti um atburði líðandi stundar, en hann dregur þó ekki upp mynd af sögunni í eiginlegri merkingu: skáldskapurinn í verkum hans sækir efnivið í raunveruleikann, ýtir honum jafnvel stundum til hliðar og hefur frásögnina upp á hærra, fjarlægara og óhlutbundnara plan. Skopskynið og háðið verður þannig til þess að grimmileg viðfangsefnin verða mildari, misgengi verður til og merkingin verður enn margbreytilegri. Málverk hans fjalla um samtíma okkar, en þó öllu fremur um þær myndir sem eru alltumlykjandi í daglegu lífi okkar. Þau hugsa og vekja okkur til umhugsunar.
,,List á að vera í senn svolítið fyndin og svolítið ógnvekjandi. Allt annað en leiðinleg. List má ekki vera leiðinleg”. Erró gæti eflaust tekið undir þessi orð Jean Dubuffets frá árinu 1967 en hann gæti kannski bætt við að listin ætti líka að ýta við fólki, vera ögrandi og sláandi.
Staðsetning: Hafnarhús – Listasafn Reykjavíkur, Tryggvagata 17, 101 Reykjavíkur
Dagsetning: 7. nóv. 2016 – 22. jan. 2017