Náttúruleg hráefni og sveitarómatík með fjarlægum ómi af pönki og prjáli eru leiðarstef íslenska hönnunarfyrirtækisins Farmers Market en undir því merki hefur Bergþóra Guðnadóttir hannað föt og fylgihluti fyrir konur, karla og börn síðan haustið 2005. Innblástur er sóttur í ræturnar, hina einstöku íslensku arfleið þar sem menn og dýr hafa lifað í sambýli við harðger náttúruöfl öldum saman.
Við staðsetjum okkur á krossgötum, skurðpunkti þar sem fortíð mætir nútíð, hið þjóðlega mætir hinu alþjóðlega og sveitin mætir borginni. Þar þykir okkur áhugavert og spennandi að vera.
Við teljum að sjálfbærni og endurvinnsla sé ekki tískubóla heldur einfaldlega lykill að framtíðinni. Eins og nafnið gefur til kynna leggjum við áherslu á að nota náttúruleg hráefni. Notkun gerviefna er haldið í lágmarki og þau aðeins notuð til styrkingar eða í einstaka smáatriði sem hönnuðurinn telur mikilvæg í heildarmyndinni.
Við erum stolt af því að vinna með mörgum alþjóðlegum textílframleiðendum í fremstu röð. Meðal hráefna sem við notum í vörulínu okkar er áströlsk merino-ull, endurunnið band frá Ítalíu, vaxborin bómull frá British Millerain, indverskt silki að ógleymdri hinni einstöku íslensku ull.
Að sama skapi vöndum við vel valið á framleiðendum til samstarfs, á Íslandi eða erlendis. Það er okkur hjartans mál að vinna með fólki sem deilir þeiri sýn með okkur að búa til fallega vörulínu í háum gæðaflokki í eins mikilli sátt við fólk og umhverfi og kostur er.