Fiskisúpudagur í miðborginni á Hátíð hafsins

Laugardagurinn 6.júní er Langur laugardagur en nú sem fyrr fer sá fyrsti laugardagur júnímánaðar saman við Hátíð hafsins. Undanfarin ár hefur verið efnt til Fiskisúpudags á Laugavegi og víðar þar sem gestum og gangandi er boðið upp á gómsæta fiskisúpu sem rekstraraðilar reiða fram. HB Grandi og John Lindsay leggja til hráefnið og hefur stemningin fyrir þessum árlega viðburði farið vaxandi frá ári til árs.

Gamla höfn og Grandi er meginvettvangur Hátíðar hafsins sem spannar bæði laugardag og sunnudag. Fjöldi skemmtiatriða er í boði og meðal þeirra sem munu skemmta í miðborginni eru Spottarnir með þá Eggert feldskera og Magnús R. Einarsson í broddi fylkingar.

Sumir rekstraraðilar byrja að reiða fram sína súpu um hádegisbil og aðrir ívið síðar um daginn. Heilsíða í Fréttablaðinu laugardaginn 6.júní mun tilgreina þá aðila sem bjóða upp á súpu, en þeirra á meðal eru Kjólar og konfekt, Kokka, Hrím, Gleraugnamiðstöðin, Íslenski barinn o.fl.

Spáin er góð og vænta má mikils fjölda fólks í miðborginni.1599072_10152791314301990_522787608275979150_o

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík