Frábær sýning Farmers Market

Reykjavik Fashion Festival tókst með besta móti um nýliðna helgi. Fjöldi glæsilegra tískusýninga var haldinn í Hörpunni við góðar undirtektir innlendra og erlendra gesta, blaðamanna, innkaupastjóra og áhugafólks. Öryggi, smekkvísi  og atvinnumennska einkenndi alla framkvæmd og ásýnd hátíðarinnar.

Sýning Farmers Market vakti sérstaka athygli fyrir tignarlegan glæsileika, en sýningin hófst kl. 15:00 laugardaginn 16.mars í  Norðurljósasalarins í Hörpu  með því að Skógarfoss birtist  á risatjaldi í öllu sínu veldi, hljómprúður og hár. Undirliggjandi mátti greina óræð umhverfishljóð og  hrynjandi sem smám saman magnaðist. Með djúpum tónum bassaklarínetts bárust síðan þjóðlegar og kunnuglegar laglínur, m.a. úr Vísum Vatnsenda-Rósu. Mátti í hálfskugga greina ásýnd forstjóra Farmers Market sem er  tónlistarmaðurinn ástsæli Jóel Pálsson sem sjálfur lék snilldarlega á bassaklarínettið, en einnig grillti í útlínur Matthíasar Hemstock slagverksmeistara auk þess dulúðugur og kyngimagnaður andi fjöllistamannsins Davíðs Þórs Jónssonar sveif yfir vötnum.

Fossinn, umhverfishljóðin og tónlistin skópu fullkomna umgjörð þess sem síðan birtist viðstöddum: Rammíslenskir síðskeggjaðir karlmenn í þjóðlegum ullarklæðnaði skunduðu út úr fossinum fram salinn, spegluðu sig i bláma Norðurljósanna og hurfu síðan aftur í  fossinn. Glæsileg og fagurbúin kona með börn sín í Bændamarkaðslopa gekk fram af öryggi og festu. Úr svip hennar mátti lesa að engu skyldi kvíða í landi ísa og óblíðra veðra – svo fremi mjúkra og hlýrra klæðanna frá Farmers Market nyti við. Fallegir náttúrulegir litir í stórglæsilegri íslenskri hönnun ásamt þeirri áhrifamiklu umgjörð sem að framan er lýst, gerðu þessa sýningu að einhverju því eftirminnilegasasta og rammíslenskasta sem sést hefur á ört vaxandi vettvangi íslenskrar  tísku, hönnunar og fataframleiðslu.  Meðal viðstaddra var Luis Arreaga, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, en hann lýsti upplifun sinni af sýningunni, agndofa af hrifningu, með þessum orðum: “This was as genuinely and divinely Icelandic as it gets!”

DSC0194DSC0209
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík