N.k. laugardag 21.október verður haldinn hátíðlegur hinn árlegi Kjötúpudagur á Skólavörðustígnum kl. 13:00 – 16:00 í samstarfi dugmikilla rekstraraðila á Skólavörðustíg, ötulla framleiðenda búvöru og valinna fyrirtækja.
1500 lítrar af lostagóðri súpu verða eldaðir af nokkrum af fremstu matreiðslumeisturum landsins og fram reiddir víða um Skólavörðustíginn.
Mikill fjöldi fólks leggur jafnan leið sína á Stíginn af þessu tilefni enda mikið um að vera. Harmonikkuleikarar í sauðalitunum munu flytja lystaukandi meltingartónlist á meðan valdir skömmtunarmenn af báðum kynjum ausa súpum í skálar gesta, þeim að kostnaðarlausu, en meðal skömmtunarmanna eru jafnan landsþekktar matgæðingar.
Í ljósi Alþingiskosninganna verður efnt til Frambjóðendafjörs í formi laufléttra kappræðna um íslenska búvöru, en sú athylgisverða uppákoma mun eiga sér stað á traustbyggðum heyvagni og dráttarvél við Hegningarhúsið á Skólavörðustíg.
Frambjóðendum allra flokka er boðin þátttaka í kappræðunum en spyrjandi verður sjónvarpsmaðurinn góðkunni Helgi Seljan frá Suður-Múlasýslu,
en kynnir og tímavörður verður Jakob Frímann Magnússon organisti og fv. fjósamaður frá Hvítárbakka í Borgarfirði.
Kappræðurnar fara fram kl. 14:30 – 15:15 við Hegningarhúsið og vísast mun að mæta tímanlega því veðurspáin er á þann veg að búast má við miklu fjölmenni þennan dag.