Framúrskarandi gæði og nýjar hugmyndir

IMG_0463

Verslun Eggerts feldskera hefur um áratuga skeið sett sterkan svip á Skólavörðustíginn, en þetta rótgróna fjölskyldufyrirtæki, sem stofnað var af handverksfólki 1977, flytur inn og framleiðir yfirhafnir af hæsta gæðaflokki úr lambaskinni, roði og margskonar feldum. Allt efnið sem notað er í flíkurnar er sérvalið og keypt inn frá aðilum sem láta sig umhverfisvernd og jafnvægi í náttúrunni varða. Eggert er virkur í samfélagi kaupmanna við Skólavörðustíginn og hefur t.a.m. komið að stofnun Kjötsúpudagsins og Blómadagsins svo eitthvað sé nefnt. Dóttir Eggerts, Anna Gulla, hattagerðakona starfar nú sem hluti af fyrirtækinu. Miðborgin okkar heimsótti verslunina á Skólavörðustígnum og ræddi við Önnu Gullu og Eggert:

,,Ég hafði frá unga aldri hugsað mér að verða klæðskeri, en þegar ég var 17 ára var ég staddur í Bremenhafen í Þýskalandi og sá þar í fyrsta skipti loðfeldaverslun og varð strax mjög spenntur fyrir faginu, svo ég skýrði foreldrum mínum frá því þegar ég kom heim að ég væri búinn að ákveða að verða feldskeri. Á þessum tíma voru höft á atvinnunuleyfum í Bretlandi og erfitt fyrir ungt fólk að komast í iðnnám. Rolf Johannssen var stórkaupmaður var vel tengdur og fann frábærlega flinkan meistara í Bond Street í London  það má kannski segja að það hafi sett markið um hvert stefndi, varðandi gæði og vinnubrögð. Þar var ég í tvö ár, en varð að fara þaðan vegna þess að ég fékk ekki lengur atvinnuleyfi, talinn taka atvinnu frá ungum breskum drengjum. Ég fór heim og var að temja hesta í rúmt sumar en fór svo til Svíþjóðar þar sem ég var í fimm ár að læra. Þar kynntist ég Ingu, móður Önnu Gullu, sem fluttist svo með mér til Íslands og byrjuðum með fyrirtækið. Við fórum strax í mikinn útflutning, stærstur hluti þess sem við framleiddum fór beint út, svo fyrstu fjögur árin var fyrirtækið lítið áberandi á Íslenskum markaði. Útflutningur hefur reyndar alltaf verið stór hluti af þeirri hugmyndafræði sem við vinnum eftir, þ.e. þeirri hugmynd að leggja með sér til þjóðfélagsins.”


Þungamiðja fyrirtækisins eru flíkurnar sem framleiddar eru á verkstæði Eggerts. En Eggert flytur einnig inn gæðaflíkur að utan sem hann selur í versluninni. Verslunin á sér tryggan fastann hóp viðskiptavina frá öllum heimshornum og er góð afspurn stór hluti af aukningu viðskipta við búðina. Dæmi eru um að fólk leggi sérstaklega leið sína til landsins og hafi pantað tíma áður en það kemur.


,,Á verkstæðinu framleiðium við fyrir verslunina en einnig hefur mikill tími farið í að sérsauma eftir óskum viðskiptavinanna. Það opnaði svo á nýja möguleika þegar Anna Gulla og Harper komu inní reksturinn. Þannig var fjölskyldan sameinuð  Og svo gátum við farið að framleiða hluti sem komu úr fleiri heilabúum heldur en heilanum á mér.“


Anna Gulla, dóttir Eggerts er komin af handverksfólki í báðar ættir. Í móðurætt hennar í Svíþjóð er handverksfólk í marga ættliði og eins eru íslenskar formæður hennar annálaðar handverkskonur og mikið um handverksfólk í fjölskyldunni. T.a.m. voru það frænkur þeirra feðgina sem sem ráku hina annáluðu hannirðabúð Baldursbrá á Skólavörðustígnum um árabil. Það lá því vel fyrir Önnu Gullu að að feta þann veg. Hattagerðin varð fyrir valinu en hún nam það fag um árabil í Gautaborg Stokkhólmi. Í skólanum kynntist hún manni sínum, Harper, sem var þá að læra sniðagerð. Harper er frá Nebraska í Bandaríkjunum, en hann er eins og Anna Gulla líka hálfur svíi. Árið 2010 stigu þau Anna Gulla og Harper inn í fyrirtæki Eggerts og hafa þau síðan verið þrjú um reksturinn. Um nýjungar fyrirtækinu síðan þau hjón stigu inn segir Anna Gulla: 

,,Ég held að okkur hafi fundist íslensku hráefnin meira spennandi en föður mínum. Svo gátum við, sem framleiðum vöruna, farið að geta verið meira til staðar í versluninni, sem viðskiptavinunum finnst spennandi upplifun. Þegar maður er að framleiða í litlu upplagi er skemmtilegra að allt sé handgert og úr bestu hráefnunum, svo þeirri stefnu höfum við vilja halda. En við höfum líka lagt áherslu á að breyta aðeins reglunum og venjunum í handverkinu og experimenta meira. Faðir minn býr yfir gífurlegri kunnáttu, en við komum kannski með aðra sýn og nýjar hugmyndir að borðinu.“


Eggert tekur undir þetta: 


,,Glöggt er gests augað. Okkur hér heima finnst íslenski lopinn og gæran kannski ekkert merkileg. Ég var náttúrulega búinn að vera að vinna með íslenska lambið síðan ég byrjaði, en þegar þau komu að utan þá áttuðu þau sig mun betur á sérstöðu hráefnisins en ég. Maður er auðvitað fastur í viðjum vanans en þeim hefur tekist að brjóta þetta svolítið upp hjá okkur.”

Frá upphafi hefur stefna fyrirtækisins verið skýr hvað varðar undantekningarlaus gæði. Svo eru það umhverfissjónarmiðin og hámarksnýting hráefna sem vega líka þungt. En fyrirtækið er líka í sífelldri þróun og ýmislegt á teikniborðinu. Lengst af hafa vörurnar frá Eggerti aðeins fengist hjá honum en nýverið varð breyting þar á þegar hin merka verslun og klæðskurðarstofa Anderson & Sheppard í London, sem þekkt er fyrir viðskiptavinahóp sinn, sem samanstendur af aðalsfólki og heimsfrægum listamönnum fékk Eggert til samstarfs um skinnavörur.


,,Ein þeirra sem kenndi mér í Svíþjóð var Doris Stille, en hún var fyrsti kvenfelskurðarmeistari heims. Við ræddum oft mikið um náttúruvernd og dýravernd og hennar sýn var öðruvísi en hjá öðrum feldskerum. Hún vildi að fólk myndi hugsa sér meira hver ætlaði að ganga í vörunni, en ekki bara búa til einhverja vöru án persónuleika. Svo sagði hún líka að hún skildi ekki fólk sem henti náttúrulegum afurðum sem hægt er að nýta, og hvernig slíkt gæti nýst náttúrunni. Þessar hugmyndir hennar voru kannski það sem setti okkur inní þá hugmyndafræði að vinna með náttúrunni og reyna að gera sem mest úr öllum þeim afurðum sem við eigum.”


,,Við erum fyrst og fremst handverksfyrirtæki, leggjum áherslu á að framleiða gæða skinnfatnað, þar á meðal tvær mokkalínur úr íslensku lambi. Önnur er tískulína, hin meiri klassík. Svo erum við að vinna með Anderson & Sheppard í London. Nafnið segir kannski fólki lítið en þegar betur er að gáð starfa þar flinkustu klæðskerar heims. Það var t.d. hjá Anderson & sem Alexander McQueen steig sín fyrstu spor en hann segist eingöngu hafa náð svo langt því hann fékk svo góðan grunn þaðan. Hugmyndafræði Anderson & Sheppard er mjög svipuð og okkar, þ.e. að það er mikið handgert og hráefnin í hæstu gæðum. Við gætum verið að fara aðrar leiðir í rekstrinum sem gæfu meira af sér  en þetta er það sem við viljum gera. Þetta er okkar ástríða.” 

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.