Athafnamaðurinn Frank Michelsen, úrsmiður og eigandi verslunarinnar Michelsen úrsmiðir að Laugavegi 15, fagnaði 60 ára afmæli 26.apríl og gladdist af því tilefni í góðum hópi nánustu vina og aðstandenda.
Frank hefur verið afar farsæll í rekstri sínum og framleiðslu á eigin úrum. Fyrirtæki hans var áður rekið af föður hans og þaráður af afa hans, en fjölskylda Franks starfar með honum við fyrirtækið í dag sem nýverið opnaði aðra verslun í Kringlunni.
Frank er ávallt vakinn og sofinn yfir þróun og velferð miðborgarinnar. Óhætt er að fullyrða að fáir ef nokkrir rekstraraðilar í miðborginni hafa lagt jafnmikinn tíma af mörkum til samfélagsstarfa og Frank, en hann sat lengi í stjórn Miðborgar Reykjavíkur og hefur setið í stjórn Miðborgarinnar okkar frá upphafi og til þessa dags – ef frá eru taldir nokkrir mánuðir.
Slík sjálfboðavinna er stórlega vanmetin, en hún er vissulega tíma- og orkufrek og felur m.a. í sér stjórnarfundi í hverri viku og þess utan fjölmarga fundi með embættismönnum og stjórnmálamönnum, öðrum rekstraraðilum , starfsfólki Samtaka verslunar og þjónustu og svo mætti lengi telja.
Þá er Frank afar frjór og hugmyndaríkur framfara- og nýsköpunarmaður. Hann á t.a.m. heiðurinn af því að þýða og heimfæra markaðsdaginn Black Friday yfir á íslensku með orðunum Föstudagur til fjár.
Miðborgin okkar þakkar Frank fyrir dýrmætt og óeigingjarnt framlag hans í þágu allra rekstraraðila miðborgarinnar og óskar honum innilega til hamingju með stórafmælið.
Á myndinni má sjá afmælisbarnið veita viðtöku blómvendi frá stjórn Miðborgarinnar okkar í tilefni dagsins.