Fundur um miðborgarmál á Kjarvalsstöðum þriðjudaginn 13.október kl. 20:00

Miðborg Reykjavíkur er allt í senn miðborg menningar, veitinga, verslunar og mannlífs. Hún er einnig hverfi og heimkynni íbúa og vinsæll áfangastaður ferðamanna. Í blandaðri miðborgarbyggð þurfa allir að lifa í sátt og samlyndi en ferðamannamiðborgin verður í brennidepli á fundinum.

Markmið fundarraðarinnar er að færa umræðu um skipulags- og umhverfismál í vítt og breitt samhengi. Leitað er eftir gagnrýnni og hressilegri umræðu þar sem ólík sjónarmið og reynsluheimar mætast á málefnalegum grunni. Fundirnir hafa verið mjög vel sóttir, bæði af fagfólki og áhugafólki um skipulag og umhverfi borgarinnar enda rætt um málin á mannamáli út frá skemmtilegum sjónarhornum. Rætt hefur verið um hamingjuna, náttúruna og heilsuna og fleira á þessum fundum og nú eru ferðamenn í brennidepli.

Á fundinum 13. október verður m.a. spurt: hvernig getum við skapað miðborg sem er áhugaverð fyrir borgarbúa, innlenda og erlenda ferðamenn? Gestir fundarins, Guðrún Jóhannesdóttir verslunarmaður í Kokku á Laugaveginum, Magnea Þórey Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Icelandair hótela og Jón Kaldal miðborgarbúi og ritstjóri Iceland Magazine ásamt Hjálmari Sveinssyni ræða um miðborgina frá ýmsum sjónarhólum.

MIÐBORGIN Í AÐALSKIPULAGI

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 – 2030 stendur: „Miðborg Reykjavíkur er í senn einstök og margslungin. Hún er sameiginlegur vettvangur fólks með ólíkar væntingar og viðmið. Til að geta tekið vel á móti öllum sem sækja miðborgina og eiga tilkall til hennar þarf hún að geta sinnt ólíkum hlutverkum og verið margt í senn, bæði hátíðleg og heimilisleg, nýstárleg og gamalgróin, erilsöm og kyrrlát.“

Miðborgin er fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Langflestir erlendir ferðamenn á Íslandi sækja miðborgina heim og nýta sér fjölbreytt tilboð hennar og tækifæri til ólíkrar upplifunar. Miðborgin er einnig verslunarmiðja höfuðborgarinnar. Í miðborginni eru líflegustu verslunargötur landsins. Þá er miðborgin hjarta veitingamenningar landsins. Í miðborginni er landsins mesta fjölbreytni og þéttleiki veitinga staða.

Búast má við spennandi og skemmtilegum umræðum meðal gesta og gangandi. Allir eru velkomnir og verður logandi kaffi á könnunni.

 

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.