Gæði, úrval og persónuleg þjónusta

cf941a8f-b45a-469e-9a4c-4174223f4c72

Sigurboginn hóf starfssemi sína á horni Laugavegar og Barónsstígs fyrir tæpum aldarfjórðungi og hefur allt frá upphafi haldið úti framúrskarandi þjónustu við dömur á öllum aldri. Í Sigurboganum eru seldar snyrtivörur, fatnaður, sokkabuxur, aðhaldsfatnaður, sundfatnaður, skart, slæður og fleira. Miðborgin okkar tók eigandann Hafdísi Steinarsdóttur, eða Dísu eins og hún er kölluð, tali og fékk smá innsýn inní starfssemi Sigurbogans.

“Fyrst og fremst þá er fagkunnáttan hér alveg gífurlega mikil. Í búðinni starfa snyrtifræðingar sem veita ráðgjöf og við leggjum mikla áherslu á góða þjónustu, þekkingu á merkjunum og hvernig vinna má með hverja vöru fyrir sig. Það er einmitt þetta sem viðskiptavinir okkar sækja helst til okkar, að fá þessa faglegu þjónustu varðandi andlitsförðunina. Einnig eru Wolford sokkabuxurnar og Stehmann buxurnar vinsælu, sem við flytjum inn sjálfar, stór þáttur hjá okkur og ráðgjöfin sem við veitum um val á þeim. Svo er það þjónustan í kringum sundfatnaðinn og val á honum sem viðskiptavinir okkar eru mjög ánægðir með. Við erum að taka sundföt fyrir konur með vöxt í öllum stærðum. Svo hver og ein á að geta fundið sér sundfatnað við hæfi. “

Sigurboginn var upprunalega stofnaður af Kristínu Einarsdóttur sem myndaði einstök og persónuleg tengsl við viðskiptavini sína sem haldist æ síðan. Eftir að hafa starfað í sjö ár í versluninni ákvað Dísa að stíga skrefið til fulls og tók við rekstrinum fyrir þremur árum.

“Þetta var bara þannig að Kristín var farin að hugleiða að breyta til og svo fór einhver umræða í gang og svo bara gerðist þetta. Ég veit ekki alveg hvernig. Kannski var því stýrt einhvers staðar annars staðar frá. Hugmyndin var heillandi fyrir mig, því ég þekkti þetta alveg út í gegn og vissi hverju ég væri að taka við. En á sama tíma var það líka smá áskorun. Við erum náttúrulega afar þakklátar fyrir alla föstu viðskiptavinina sem hafa haldið svo mikilli tryggð við búðina alla tíð. Þess vegna höfum við lagt áherslu á að halda öllu upprunalegu. Það er allt alveg eins og það var. Við viljum að kúnninn geti komið til okkar og gengið að búðinni vísri eins og þeir þekkja hana. Svo það hefur ekki orðið nein breyting hér á. Viðmiðið hjá okkur er alltaf það sama; að það sé góð þjónusta, góðar vörur og góð efni.“

Nú eru útsöluvertíðin búin og vorvörurnar farnar að berast yfir hafið í Sigurbogann og þessum tíma árs eru sundfötin hvað mikilvægust í búðinni. En það eru ekki bara íslenskar konur sem leita eftir sundfötum hjá Sigurboganum. Með auknum fjölda ferðamanna hefur erlendum heimsóknum í Sigurbogann fjölgað.

,,Já, fólk er oft á leið í Bláa lónið og sundfatnaðurinn hefur gleymst heima, en svo erum við náttúrulega með íslensku snyrtivörulínuna Bio Effect, sem fólk að utan virðist vera ansi lúnkið við að ná sér í upplýsingar um og vita oft allt um vöruna áður en þeir koma til okkar að versla. Ég held að ferðamennskan hjálpi öllum, alveg sama í hvaða geira þeir eru á Íslandi. Ég held við séum bara mjög heppin að vera svona “in” í dag eins og við erum. En við þurfum að varðveita og passa uppá hvað við erum að bjóða fólki uppá. Hvort sem það eru verðin eða þjónustan þá þurfum við að standa okkur. Ef við vöndum okkur ekki er ekkert víst að fólk vilji koma hingað aftur. Laugavegurinn er mikilvægur hluti af borgarmynd Reykjavíkur og verður að viðhalda sér. Svo við í Sigurboganum leggjum áherslu á að þeir ferðamenn sem versla hjá okkur gangi út ánægðir með þjónustuna.”

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.