Opnunarviðburður Hinssegin daga í ár var í dag þegar stjórn þeirra, borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson og tugir sjálfboðaliða opnuðu hátíðina með málningarrúllu í hönd og máluðu tröppurnar upp að Menntaskólanum í Reykjavík í regnbogalitunum. Jón Kjartan Ágústsson hefur verið varaformaður Hinsegin daga í þrjú ár. Hátíðin er haldin ár hvert fyrstu vikuna eftir verslunarmannahelgina frá þriðjudegi til sunnudags en hápunktur hennar er Gay Pride gangan á laugardeginum, sem verður nú á laugardaginn 6. ágúst. Miðborgin Okkar náði tali af Jóni Kjartani á vettvangi:
„Þemað í ár er saga þannig að við ákváðum að MR væri ágætis punktur til að hefja dagsskránna og tengja skólann við þema hátíðarinnar. Það eru margs konar viðburðir sem tengjast þessu þema, t.d. sögugangan í kvöld og sérstakt söguþema á opnunarhátíðinni á fimmtudaginn þar sem hinsegin tónlistarsaga verður í forgrunni. Svo endar þetta allt á Stjórnarballinu núna á laugardaginn sem verður í Bryggjunni, Brugghúsi, þar sem Stjórnin mun fylla húsið.”
Götumálunin í dag er unnin í samstarfi við Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar og er hluti af verkefninu „Torg í biðstöðu” í miðborg Reykjavíkur og nefnist viðburðurinn „Málum gleðirendur” en sá viðburður sló í gegn í fyrra þegar Skólavörðustígurinn var málaður með sama hætti. En hvað finnst Jóni Kjartani vera hápunktur hátíðarinnar í ár?
„Það náttúrulega kannski helst þessir viðburðir sem eru ekki árlegir heldur eru nýir hvert sinn, eins og t.d. í ár þykir mér standa uppúr viðburður sem heitir „Hrein og bein, þrettán árum seinna”, en heimildarmyndin „Hrein og bein” var gerð 2003 og fjallaði um hinsegin ungmenni á Íslandi og hefur verið sýnd á RÚV og í barnaskólum á hverju ári síðan. Nú eru 16 ár síðan þessi heimildarmynd var gerð og við verðum með endurfundi þar sem leikstjóri, handritshöfundur og nokkrir þátttakendur í myndinni munu hittast og ræða saman í Iðnó til þess að tala um hvað hefur gerst síðan.”
Miðborgin Okkar hvetur fólk til að kynna sér dagsskrá Hinsegin daga en hana má finna hér á heimasíðu hátíðarinnar:
http://hinsegindagar.is/