Göngutúr í haustdýrðinni

Nú komið er langt fram í októbermánuð og enn ljómar haustdýrðin. Örlítið er farið að kólna og síðustu laufblöð sumarsins að falla. Haustið tekur senn enda og vetur konungur tekur við. Já hringrás lífsins blasir víða við, ein af fjölmörgum. Önnur hringrás er sú að alltaf kemur að nýrri viku og þessi “blessaði” mánudagur gengur í garð. Sumum okkar finnst hann kærkominn með tilkomu nýrra verkefna og tækifæra og við nýtum hann til innblásturs eftir góða hvíld helgarinnar, á meðan öðrum þykir hann eins og hver annar mánudagur og þá einna helst dagur skyldunnar. En öll getum við sameinast um það að sama í hvernig skapi við erum og hvernig sem okkur líkar við mánudagana, þá er sólin alltaf kærkomin og lyftir upp geði og gæðum hvers þess sem við erum að fást við. Og er hún komin hér í dag á þessum fallega mánudegi októbermánaðar 2013 og er þá ekki tilvalið að nýta hann vel, klæða sig í hlý föt og skella sér út í góðan göngutúr að vinnudegi loknum. Skoða síðustu liti haustsins í fallegu sólarbirtunni, kíkja í búðir og viðra hugmyndir að jólagjafa-innkaupum og öðru, enda svo daginn áður en haldið er heim í matseldina, á góðum kakóbolla á einu af kaffihúsum borgarinnar . Ekki skemmir fyrir ef hægt er að líta í nokkur blöð og bækur þar, enda fjölmörg kaffihúsin orðin bókakaffihús. Njótum vel og gerum það besta úr deginum, þó að það sé mánudagur…IMG_3925_Fotor

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.