Gunn Hernes nýráðin verkefnastýra í Norræna Húsinu

Gunn Hernes frá Noregi hefur verið ráðin verkefnastýra Norræna Hússins og hóf störf í þessum mánuði. 140 manns víðsvegar frá Skandinavíu sóttu um starfið en Gunn hreppti hnossið. Samstarfsfólk hennar í Norræna Húsinu hefur tekið henni fagnandi, ekki síst vegna þess að langt er um liðið síðan Norðmaður var síðast ráðinn til starfa í Húsinu. Í kjölfar hruns hafa Íslendingar miklum mæli flust búferlum til Noregs og segist Gunn finna fyrir því að það komi Íslendingum á óvart að hún hafi flust hingað til lands í atvinnuskyni:

IMG_0184

,,Fólk spyr mig; ertu frá Noregi og flutt hingað til að vinna? En það ætti einmitt að vera öfugt! Vissulega er það sjaldgæft að Norðmenn flytjist til Íslands í atvinnuskyni en eins og ég sé það er einfaldlega; afhverju ekki?” 

 

Gunn bjó síðustu fimmtán ár í Bergen og fékkst við margvísleg krefjandi verkefni á sviði menningarstjórnunar. Hún starfaði meðal annars með norskum danshöfundum og danskompaníum og ferðaðist með þeim um heimsins höf og skipulagði menningarviðburði og hátíðir hvers konar. Hún hefur mikinn áhuga á að nýta reynslu sína hér á landi og leggja sitt að mörkum til þess að þróa starfsemi Norræna Hússins áfram:

 

,,Norræna húsið er með marga fasta viðburði allan ársins hring sem nauðsynlegt er viðhalda og standa eins vel að eins og hægt er. En þó ég sé aðeins búin að vinna hér í þrjár vikur, þá finn ég sterkt fyrir því að ég hafi frelsi til að koma með nýjar hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd. Ég hef t.d. mikinn áhuga á að virkja meira ungt fólk, sér í lagi unga og upprennandi myndlistarmenn. Eins ber ég væntingar til breytinga sem nýlega voru gerðar eftir að Mikkel Harder varð nýr forstjóri Hússins í vor, en hann stóð fyrir því að eitt af rýmunum í sýningarsalnum í kjallara hússins var svartmálað og lýsingin endurhönnuð og til að skapa svokallað “black box” rými, sem nýtist vel til smærri performansa og eins tónleika. Á Airwaves hátíðinni í ár verður þessi kassi aðal tónleikarými Norræna Hússins svo það verður spennandi að sjá hvernig hann mun reynast í þeim tilgangi.”

 

Það verður svo sannarlega forvitnilegt að fylgjast með Gunn Hernes og Norræna Húsinu næstu misseri. Miðborgin Okkar óskar Gunn innilega til hamingju með ráðninguna og býður hana hjartanlega velkomna til Reykjavíkur.

 

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík