Hápunktur aðventunnar er Þorláksmessa Tenóranna þriggja

Þorláksmessan markar öllu jöfnu hápunkt stemningarinnar í miðbænum , fólksfjöldinn og jólaandinn fer ekki framhjá neinum. Undanfarin ár hefur einn fastur punktur í tónlistarviðburðaflóru jólaaðventunnar risið hvað hæst, en það er samsöngur Tenóranna þriggja í Jólabænum. Undir forystu Jóhanns Friðgeirs Valdimarssonar mun þríeykið stíga fram á Þorláksmessukvöld kl. 21:00 á svölum Hótel Víkur við Jólabæinn á Ingólfstorgi og hefja upp raust sína í sígildum jólalögum við undirleik Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur píanóleikara sem jafnframt er tónlistarstjóri Hörpunnar. Auk Jóhanns Friðgeirs eru það stórsöngvararnir Garðar Thór Cortes og Snorri Wium sem fylla miðborgina himneskum tenórtónum og sannri jólastemningu. Jólabærinn er síðan opinn til kl. 23:00  þetta síðasta kvöld fyrir aðfangadag og er þar margt skemmtilegt og jólalegt í boði, fjölbreytt matvara, gjafavara, skinn- og ullarvara og margt fleira, auk veitingatjalds með heitt jólaglögg, kakó o.fl., risaskjá með jólaefni og fjölbreytta tónlistardagskrá.

Hin árlega Friðarganga hefst á Hlemmi kl. 18:00 og kl. 19:00 hefst dagskrá á Ingólfstorgi henni tengd, en Jón Gnarr borgarstjóri er ræðumaður kvöldsins.

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.