Harpa skartar Ara, Mengi heilum skara!

Miðborgin er vettvangur fjölmargra ólíkra upplifana- og afþreyingarmöguleika. Helstu verslunargötur miðborgarinnar eru heilmikið sjónarspil eitt og sér, þar sem fjölbreytileikinn spannar allt litróf verslunar, þjónustu og mannlífs. Þá fer viðburðahúsum ört fjölgandi í miðborginni, jafnt í einkarekstri sem á vegum hins opinbera.
Harpan býður daglega upp á fjölmarga spennandi möguleika svo sem 360° kvikmyndaða upplifun af Íslandi vítt og breitt, fallega hönnunarverslunm og gómsætar veitingar í Smurstöð á jarðhæð og Kolabraut á 4.hæð hvaðan útsýnið er óviðjafnanlegt. Þá er þar að finna sýningar og daglega fundi og mannfagnaði, en fyrst og síðast auðvitað fjölþætt úrval áhugaverðra tónleika af akri bæði sígildrar tónlistar og nýgildrar.
Um þessar mundir skartar Harpa harla óvenjulegum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ara Eldjárn.
Harpa er í senn stærsta og glæsilegasta upplifunarhús Reykjavíkur og Íslands.
Screen Shot 2017-02-10 at 13.33.53

Eitt af smæstu upplifunarhúsum Reykjavíkur hlýtur hins vegar að teljast vera Mengi við Óðinsgötu 2 og er þá viðmiðið fermetrafjöldi. Þar hugsar fólkið þó jafnstórt ef ekki stærra en í öðrum upplifunarhúsum og býður upp á menningarviðburði sem falla jafnan utan hins hefðbundna eða fyrirséða.

Föstudagskvöldið 10.febrúar er þar í boði miðaldamúsík undir formerkjum engilfagurra hljómkviða, Symphonica Angelica, en listamennirnir Sigurður Halldórsson og Halldór Bjarki Arnarson flytja saman á strengjahljóðfæri og harpsikord þekkt verk frá barok- og endurreisnartímanum eftir meistara á borð við Vincenzia Ruffo, Domenico Gabrieli, Frescobaldi da Selma and Marin Marais.
Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og er aðgangseyrir einungis kr. 2.000.

Degi síðar, á laugardeginum 11.febrúar verður þverflautan í fyrirrúmi í Mengi þar sem flautuleikarinn góðkunni, Berglind María Tómasdóttir, leikur til skiptis á piccoloflautu, bassaflautu og þverflautu og nýtir umhverfishljóð og fjölþætta hljóðheima til stuðnings. Verk eftir hana sjálfa sem og Nicholas Deyoe, Scott Worthington, Chaya Czernowin, Morton Feldman, Önnu Þorvaldsdóttur og Clint McCallum verða flutt á þessum tónleikum sem hefjast kl. 21:00.

Helgardagskrá Mengis lýkur síðan á sunnudaginn 12.febrúar þegar rafheimar opnast með tveimur virtum tilraunamönnum tónlistarheimsins, sellóleikaranum Alice Eldridge (Collectress, En Bas Quartet) og tölvu-listamanninum Chris Kiefer (Luuma). Þessir tveir eru þekktastir af því hvernig víkka má hljóðheim sellósins með feed-back hljóðum, tölvum og öðrum tólum og tækjum. Þeim til aðstoðar koma fram trompetleikarinn Eiríkur Orri og þranafón-leikarinn Ingi Garðar. Raunheyrn og sjón mun sögu ríkari í þessu samhengi öllu sem hefst kl. 21:00 á sunnudagskvöld og aðgangseyrir sem fyrr aðeins kr. 2.000.
Screen Shot 2017-02-10 at 13.32.35

Hér er að góðu getið starfsemi tveggja merkisstaða, tveggja ólíkra húsa, sem eiga það helst sameiginlegt að skarta ólíkum upplifunarmöguleikum á heimsmælikvarða. Húsin eiga það reyndar einnig sameiginlegt að heita fimm stafa nöfnum.

Hannesarholt, Norræna húsið, Borgarbókasafnið, Sjóminjasafnið, Húrra, Kex, Rósenberg, Bravó, Gamla bíó og óteljandi aðrir staðir í miðborginni eru síðan daglegur vettvangur einkar áhugaverðra viðburða sem skipta hundruðum í viku hverri.

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.