Verslanirnar Mamma veit best og JOYLATO eru líkar og ólíkar í senn og reknar í sama húsnæði á tveimur stöðum; Laufbrekku 30, Kópavogi og svo Njálsgötu 1 en verslanirnar á Njálsgötu opnuðu síðasta sumar og hafa notið gífurlegra vinsælda. Þar er opið til 23 á kvöldin og alltaf nóg að gera. JOYLATO selur einstakan og heilsusamlegan ís og Mamma veit best selur úrval lífrænna og náttúrulegra bætiefna og heilsuvara. Báðar verslanirnar tengjast Sri Chinmoy hreyfingunni á Íslandi.
Hjá JOYLATO er kappkostað við að nota lífræn hráefni og íslensk hráefni beint úr náttúrunni án fyllingarefna, bindiefna, maískornasíróps, hvíts sykurs eða annara gerviefna. Hver og einn ís er framleiddur um leið og hann er pantaður, en notast er við fljótandi köfnunarefni sem snöggkælir hráefnið. Hægt er að velja úr kókos-, möndlu-, kasjú- eða kúamjólk frá Rjómabúinu á Erpstöðum í Búðardal og allt hráefni er unnið á staðnum. Ísgerðin tekur sinn tíma, enda er ekki gengið út frá magni eða fjölda seldra ísa, heldur gæðum íssins og góðra áhrifa sem hann á að hafa á þá sem hans neyta.
Mamma veit best er heildsala, verslun og netverslun en vörur þaðan má finna í flestum apótekum og heilsubúðum landsins. Markmið verslunarinnar er að færa fólki það besta af lífrænum heilsuvörum, bætiefnum og snyrtivörum víðs vegar að úr heiminum en á vefsvæði verslunarinnar kemur fram að nafn fyrirtækisins vísi í þá trú að Móðir jörð viti hvað best er fyrir börnin hennar.
Það er ánægjuefni að þessar tvær verslanir skuli dafna í miðbænum og auka þannig flóruna og framboð af heilsusamlegum vörum og getur Miðborgin okkar vitnað um gæði JOYLATO íssins, sem vonandi er kominn til að vera.