Í Hafnarhúsinu má um þessar mundir upplifa viðamikið 40 mínútnalangt myndbandsverk eftir írska myndlistarmanninn Richard Mosse, sem sett er upp á sex risaskjám sem sýnir innrauðar kvikmyndir frá austurhluta Kongó, þ.e. sem teknar eru upp á innrauða filmu sem breytir grænum lit í skærbleikan. Myndirnar gefa magnþrungna og nána mynd af lifsskilyrðum fólks á þessu svæði og varpa ljósi á stríðshörmungarnar í landinu og bág lífsskilyrði íbúanna. Auk myndskeiðanna eru líka ljósmyndir á sýningunni sem teknar eru með sömu filmu. Hljóðmynd Ben Frost eykur mjög á heildarupplifunina af sýningunni og verður tilfinningin inni í sýningarsalnum, að vera umvafinn sýningarskjám og hljóðum, oftar en ekki eins og maður sé hreinlega á staðnum. Myndefninu er raðað saman í ljóðræna heild þar sem skiptast á friðsæl náttúruskot og ærandi mannmergð. Miðborgin Okkar mælir með þessari sýningu og geta gestir í leiðinni litið á sýningar með Yoko Ono og Erro sem einnig standa yfir.