Þann 4. nóvember síðastliðinn opnaði í Borgarbókasafninu í Grófinni sýning á ljóðum Snorra Hjartarsonar. En einnig eru til sýnis munir sem tengjast starfi hans hjá Borgarbókasafninu sem bókavörður. Sýningin ber heitið Inn á græna skóga, en hún er að hluta til framhald samnefndrar sýningar sem opnaði á Þjóðarbókhlöðunni í apríl í fyrra. Sýningin er haldin í samstarfi við félagið Ljóðvegi og Landsbókasafn Íslands, Háskólabókasafn. Snorri Hjartarson (1906-1986) var rithöfundur og ljóðskáld. Foreldrar hans voru Hjörtur Snorrason, bóndi og alþingismaður og Ragnheiður Torfadóttir, húsfreyja. Þau bjuggu á Hvanneyri þegar Snorri fæddist en fluttu síðar í Arnarholt í Stafholtstungum. Snorri bjó lengi í Noregi og stundaði m.a. myndlistarnám við Listaháskólann í Osló. Fyrsta ritverk Snorra kom út á norsku árið 1934, skáldsagan Høit flyver ravnen. Snorri er þekktastur fyrir ljóðbækur sínar á íslensku. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1981 fyrir ljóðabókina Hauströkkrið yfir mér.
Sýningin stendur til 28.febrúar og má sjá meira um hana hér.