Jólakötturinn mætir á Lækjartorg

Laugardaginn 16. nóvember klukkan 15.30 verður kveikt á ljósunum á jólakettinum á Lækjartorgi. Dagur B. Eggertsson mun bjóða köttinn velkominn á torgið.

Söng – og kvæðahópur Graduale Futuri mun syngja nokkur jólalög og hjónin Grýla og Leppalúði verða á staðnum.

Jólakötturinn (Jóhannes úr Kötlum)

Þið kannist við jólaköttinn,
– sá köttur var gríðarstór.
Fólk vissi ekki hvaðan hann kom
eða hvert hann fór.

Hann glennti upp glyrnurnar sínar,
glóandi báðar tvær.
– Það var ekki heiglum hent
að horfa í þær.

Jólakötturinn er ein af best þekktu íslensku jólavættunum. Hann er gríðarstór, eins og segir í löngu kvæði Jóhannesar úr Kötlum um þessa óvætt sem er sögð leggja sér þá til munns sem ekki fá nýja flík fyrir jólin. Það kallast að fara í jólaköttinn og eins gott fyrir bæði börn og fullorðna að forðast þau grimmu örlög, t.d. með því að vinna sér inn fyrir þótt ekki væri nema einu sokkapari. Jólakötturinn minnir á svipaðar dýravættir á öðrum Norðurlöndum og á ættir að rekja til þeirra, svo sem jólahafursins sem margir Íslendingar þekkja líka.

Í dag er því oft haldið fram að jólakötturinn sé heimilisdýr Grýlu og Leppalúða en ómögulegt er að segja hvort hann eigi í raun heima hjá þeim eða hvaðan hann eiginlega kemur. Hitt er víst að við getum öll hjálpast að við að tryggja það að enginn þurfi að fara í gin kisu, ef hún er þá í raun og veru til. Hvað sem um það má segja lifir hún allavega góðu lífi í þjóðsögum og kvæðum sem munu vonandi halda áfram að skemmta okkur – og hræða – um ókomna framtíð.

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.