Ólafur Örn um Jólakrásina

12373355_948781001823864_3986596154367090205_n

Jólakrásin er haldinn öðru sinni í ár en þá er Krás götumarkaðurinn í Fógetagarðinum klæddur í vetrarbúninginn og sveipaður tjöldum til varnar veðrum og vindum. Miðborgin okkar tók skipuleggjandan Ólaf Örn Ólafsson tali:

“Þetta æxlaðist þannig að eftir fyrsta Krás markaðinn í fyrrasumar fór fólk strax um haustið að spyrja okkur útí hvort við vildum ekki vera með jólamarkað og þetta var kannski svolítið eins og með forsetaframbjóðendurna, fólk þrýsti á okkur úr öllum áttum að gera þetta. Og jólakrásin í fyrra sem var bara í litlu tjaldi heppnaðist mjög vel, þannig að við erum bara mætt aftur til leiks í jólaskapi og búin að tvöfalda tjaldrýmið svo það komast fleiri að, enda búið að tjalda yfir meira og minna allan fógetagarðinn.

Úrval veitingastaða býður uppá fjölbreyttar götukræsingar þessu sinni; Bergson, Momo, Reykjavík Chips, Haust, Sautján Sortir, Austurlandahraðlestin, Sushi vagninn. Gerður Jónsdóttir er hinn aðalskipuleggjandi og upphafsmaður markaðarins, en leiðir hennar og Ólafs lágu óvænt saman í gegnum Reykjavíkurborg . Gerður og Ólafur hafa alltaf lagt áherslu á fjölbreytta flóru og þó einhverjir staðir hafi verið með frá upphafi þá taka þau alltaf á móti nýjum og hafa tilbreytingunni í hávegum.

“Við fengum þessa frábæru hugmynd bæði sama tíma í sitthvoru horni og vorum leidd saman. Við þekktumst ekkert fyrir. Okkur fannst báðum ekki nóg af götumat, eða “street food” í Reykjavík þegar við byrjuðum og langaði að fá svolítið meira af því konsepti. Það sem okkur finnst svo frábært við Krás Götumarkaðinn er að það eru allir jafn réttháir, hvort sem þeir eru að vinna á Grillinu á Hótel Sögu í kebabsjoppu. Það sitja allir við sama borð og það myndast einhver ótrúlega falleg vinátta og stemning á milli fólks, þó það sé náttúrulega í samkeppni um kúnnann.”

Unnendur Krásar Götumarkaðar sækja ekki aðeins í matinn sem er á boðstólum heldur einnig í þá einstöku stemningu sem myndast í gegnum samspil matar og tónlistar sem gegnir ekki síður mikilvægu hlutverki. DJ Flugvél og geimskip og Teitur munu spila við opnunina á morgun, en veitt verður milli 13 og 19.

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík