Kaffibrennslan – 10 ára afmæli 🥳

Um helgina fagnar Kaffibrennslan við Laugaveg 10 ára afmæli. Staðurinn var opnaður í lok nóvember 2013 í sögufrægu húsi á Laugavegi 21 sem var byggt 1884. Yfirsmiður hússins var Ole Johan Haldorsen, jafnan kallaður Óli norski. Húsið var fyrst einlyft en eftir að Óli flutti þangað sjálfur 1894 stækkaði hann og hækkaði húsið og það fékk á sig þá mynd sem haldist hefur síðan. Í húsinu stundaði Óli vagnasmíði og eftir fráfall hans og Else konu hans var húsið í eigu afkomenda þeirra fram á áttunda áratug síðustu aldar. Sonarsonur þeirra stofnaði meðal annars eitt af fyrstu listagalleríum landsins í húsinu 1964. Margvísleg önnur starfsemi hefur verið í húsinu, skósmíði, söðlasmíði, þar var rekið sláturhús, klæðskerar stunduðu þar iðn sína og þar hafa verið verslanir af ýmsu tagi og veitingasala. Mennta- og menningarmálaráðherra friðaði ytra byrði hússins 2011 tveimur árum áður en Kaffibrennslan opnaði.

Þegar Kaffibrennslan settist að í húsinu 2013 var nýhafin uppbygging á Hljómalindarreitnum sem dró nafn sitt af hljómplötu- og menningarmiðstöðinni Hljómalind sem var í húsinu áður. Frá upphafi hefur Kaffibrennslan kappkostað að bjóða uppá úrval kaffi- og tedrykkja ásamt girnilegu meðlæti, rómuðum samlokum, tertum, vöfflum, öl og víni í vinalegu umhverfi á besta stað við Laugaveginn. Andinn í húsinu er góður og skv. Grapevine víst svo góður að blaðið valdi hann besta “date” stað bæjarins. Garðurinn við Kaffibrennsluna hefur verið vel nýttur til allksonar brúks á þessum fyrstu 10 árum á 17. júní, Pride, Menningarnótt og í jólamánuðinum. Sumarið 2021 jókst notagildi hans frekar þegar fyrsta gróðurhúsið við Laugaveg spratt þar upp. Húsið og umhverfi þess hefur ratað inn í ófá myndaalbúmin í gegnum tíðina ásamt jólaskreytingum Kaffibrennslunnar sem vekja alltaf eftirtekt.

Í tilefni afmælisins býður Kaffibrennslan uppá konfekt með kaffinu um helgina ásamt því að 10 ára afmælispóstkortasería, með teikningum tengdum staðnum eftir Eystein Eyvindsson, verður kynnt.

Nánari upplýsingar er að finna á instagram síðu Kaffibrennslunnar

 

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.