Kjötsúpa borin í Hegningarhúsið n.k. laugardag

IMG_0102Jóhann Jónsson tók við rekstri Ostabúðarinnar á Skólavörðustíg um áramótin 2000 og er óhætt að segja að starfsemin hafi vaxið og dafnað síðan. En frá í júní á þessu ári hefur Ostabúðin, auk þess að vera sælkeraverslun og hádegisverðastaður, einnig boðið uppá dagseðil og kvöldverðarseðil. Staðurinn er opinn til 21 á kvöldin og er nú einnig með vínlista til að velja úr með matnum.  Ostabúðin á sér stóran og dyggann hóp viðskiptavina, ekki síst vegna þess mikla úrvals sérvöru sem Jóhann hefur alla tíð lagt áherslu á;

,,Þegar ég tók við búðinni byrjaði ég á að breyta henni í góða sælkeraverslun, kom upp forréttaborði með reykt og grafið kjöt og byrjaði svo fljótlega með samlokur. 2003 fór ég að taka inn vörur frá Suður Frakklandi sem við erum með einkaleyfi á og flytja vörur beint að utan sem við erum eingöngu að selja hér. Það styrkti búðina mikið og gerir enn. Svo bætti ég við veisluþjónustunni og heita hádegismatnum og það styrkti reksturinn líka. En stóra breytingin var náttúrulega þegar við opnuðum veitingastaðinn eftir stækkun núna í lok júní. 

Ostabúðin hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum tíðina. Jóhann heldur fast í verslunina á Skólavörðustígnum, flýtir sér hægt og hefur verið óhræddur við að fara eigin leiðir í að byggja upp reksturinn og umsvifin hafa nú aukist svo um munar;

Lykilatriðið með svona rekstur er að taka þetta í hænuskrefum. Það er það eina sem gildir. Ég man alveg eftir því í kringum 2007 þá fékk ég oft símtöl þar sem ég var spurður: ,,Viltu opna í Kringlunni, viltu opna í Smáralind, viltu koma í Hafnafjörðinn, Mosfellsbæinn” o.s.frv. Ég var meira að segja einu sinni kallaður á fund niðrí banka með tveimur flottum strákum sem buðu mér að opna eins marga staði og ég vildi. En ég svaraði því bara þannig að ég væri ekkert að ræða svona hluti. Að ég væri bara að byggja upp einn stað. Núna erum við með viðskiptavini úr öllum hverfum í Reykjavík sem er ekki bara jákvætt fyrir okkur heldur líka fyrir miðborgina sjálfa. ” 

Hinn árlegi Kjötsúpudagur á Skólavörðustíg verður haldinn í þrettánda sinn á fyrsta vetrardegi næstkomandi laugardag, 24. október. Súpan verður borin fram á nokkrum stöðum; fyrir framan Ostabúðina, Hegningarhúsið, Sjávargrillið, Handprjónasambandið og Eggert Feldskera. Í ár standa að súpunni Ostabúðin, Sjávargrillið, Kol, Kaffi Loki og Þrír Frakkar. Úlfar Eysteinsson, eigandi Þriggja Frakka og starfsmenn hans munu standa vaktina fyrir framan Hegningarhúsið eins og áður, en hefð hefur myndast fyrir því á Kjötsúpudaginn að gefa súpupott  inn til fanganna.

,, Það fyrsta sem er gert, áður en við keyrum súpuna af stað, þá fer Úlfar með súpupott inní Hegningarhúsið. Þetta verður í síðasta skipti sem pottar fara inn til fanganna, því það verða engir fangar þarna næsta haust. Sem betur fer… “

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.