Kynningarfundur um endurbætur miðborgargatna

Í sumar verður unnið að miklum endurbótum á Hverfisgötu, Frakkastíg og Klapparstíg. Hjólastígar verða lagðir, gangstéttar endurnýjaðar og hitalögnum komið fyrir. Reykjavíkurborg boðar til kynningarfundar um framkvæmdirnar í Tjarnarbíói miðvikudaginn 15. maí kl. 17.15.

Göturnar verða opnar fyrir umferð gangandi og hjólandi allan framkvæmdatímann. Fyrst verður unnið í akbrautinni og á meðan er fært um gangstéttarnar og þegar akbrautin hefur verið malbikuð verður hún opin gangandi og hjólandi. Meðan unnið er að endurnýjun gangstétta verður göngubrúm komið fyrir eftir þörfum til að halda opnu aðgengi að húsum.  Umferð bíla verður beint um hjáleiðir og til að raska þeirri umferð sem minnst er framkvæmdunum á Hverfisgötu skipt í tvo áfanga.   Vinna hefst í júlí á Frakkastíg og á Hverfisgötu frá Vitastíg niður að Vatnsstíg, en frá Vatnsstíg að Klapparstíg ekki fyrr en 26. ágúst. Strætó verður á framkvæmdatíma beint um Sæbraut og verða biðskýli sett upp þar til bráðabirgða.

Framkvæmdirnar eru löngu orðnar tímabærar og taka Hverfisgata og Frakkastígur stakkaskiptum í sumar:

  • Nýtt yfirborð götu og gangstétta.
  • Snjóbræðsla verður sett í gönguleiðir, hjólareinar og upphækkuð gatnamót.
  • Lagnir sem komnar eru á tíma verða endurnýjaðar í samstarfi við veitufyrirtækin Orkuveitu Reykjavíkur, Gagnaveituna og Mílu.
  • Gatnamót verða steinlögð og upphækkuð.
  • Götutré verða gróðursett.
  • Hjólareinar verða beggja vegna götu.
  • Öryggi hjólandi, gangandi og akandi vegfarenda verður bætt.
  • Strætisvagnar sem fara um Hverfisgötu munu stöðva í götunni og hjólandi vegfarendur fara aftur fyrir strætóskýli.
  • Hámarkshraði umferðar verður áfram 30 km/klst.
  • Á Hverfisgötu, milli Lækjargötu og Snorrabrautar, verða umferðarljós fjarlægð og beygjuakreinar lagðar af.
  • Á Hverfisgötu verða hjólastígar malbikaðir, einnig yfir gatnamót.
  • Á Frakkastíg verður malbikuð hjólarein vestan megin í götu, en hjólavísar í götu austan megin.

 

Nánar um framkvæmdirnar er að finna á upplýsingasíðum í Framkvæmdasjá Reykjavíkur:

 

Útlitsmyndir og tenglar eru í frétt á vef Reykjavíkurborgar >>>  http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-757/521_read-35976

 

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.