“Langur laugardagur í miðborginni er teygjanlegt hugtak”

Fyrsti laugardagur hvers mánaðar hefur um áratugaskeið verið nefndur Langur laugardagur og þá jafnan verið opið  klukkutund lengur en ella, til 17:00 í stað 16:00.

Undanfarin ár hefur átt sér stað þróun sem vafalítið má rekja til vaxandi fjölda erlendra ferðamanna, og er hún  á þann veg að sífellt fleiri rekstraraðilar kjósa að teygja opnunartíma sinn fram eftir kvöldi.

Þannig hafa allar bókabúðir miðborgarinnar verið opnar til kl. 22:00 um árabil, ferðamannaverslanir af ýmsum toga hafa undnafarin misseri verið að lengja sinn opnunartíma, bæði virka daga og á laugardögum, og eru útivistarfataverslanir þar framarlega í hópi, einkum við Bankastræti sem stundum gengur undir nafninu Flís Street.

Þá hafa hönnuðir og skartgripasalar tekið upp á því að lengja sinn opnunartíma og ýmsir fleiri sem kjósa að láta eftirspurn og fjölda fólks á ferli ráða sínum opnunartíma.

Er það í sjálfu sér hið besta mál, eða eins og einn rótgróinn verslunaraðili orðaði það: “Langur laugardagur í miðborginni er  teygjanlegt hugtak”.

Þessir aðilar og fleiri eru síðan farnir að opna verslanir sínar á sunnudögum, eftir því sem eftirspurn býður.

Miðborgin okkar hefur á heimasíðu sinni lagt fram leiðbeinandi opnunartíma sem miðast við lágmarksopnun: 10:00 – 18:00 virka daga og 11:00 – 16:00 laugardaga og til 17:00 langa laugardaga.  Um leið og rekstraraðilar eru hvattir til að hafa opið eins lengi og þeim þykir henta er þess óskað að lágmarksopnunartími sé virtur svo viðskiptavinir geti treyst því að þeir fari ekki erindisleysu í innkaupaferðir sínar í miðborgina.

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.