Listasafn Íslands – Valtýr Pétursson

Valtýr Pétursson (1919-1988) var brautryðjandi abstraktlistar hér á landi, afkastamikill listmálari, mikilvirkur gagnrýnandi og virkur þátttakandi í félagsstarfi listamanna. Sýningunni sem opnaði í Listasafni Íslands í september 2016 er ætlað að gefa yfirlit yfir fjölbreyttan listferil Valtýs.

Síðasta yfirlitssýning á verkum Valtýs Péturssonar var haldin í Listasafni Íslands árið 1986 og er því löngu tímabært að kynna þennan fjölhæfa myndlistarmann fyrir nýjum kynslóðum og veita þeim sem eldri eru tækifæri til að endurnýja kynnin, en margt í verkum Valtýs kallast á við samtíma okkar og gefur tilefni til að skoða þau í nýju ljósi.

Sýningin í Listasafni Íslands verður í tveimur sölum safnsins og henni mun fylgja vönduð bók með fræðilegum greinum um listferil Valtýs og störf hans sem listgagnrýnanda, auk ítarlegs æviferils og ljósmynda af listaverkum.

Sýningin, sem og bókin um Valtý og verk hans, er unnin í samvinnu við Listaverkasafn Valtýs Péturssonar sem var stofnað að honum látnum og varðveitir fjölda málverka og pappírsverka auk bréfa, blaðagreina, ljósmynda og annarra heimilda sem tengjast Valtý Péturssyni og veita ómetanlega innsýn í ævi hans og störf.

Sýningartími er frá: 15. nóv. 2016 til 12. feb. 2017

Staðsetning: Listasafn Íslands Fríkirkjuvegur 7, 101 Reykjavík

Sími: 515-9620

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík