Listin kraumar í miðborginni

Listin að lifa er margslungin. Að gefa sig listinni á vald er ein leið til að útvíkka sálarlútuna og gleyma um stund amstri hinnar líðandi stundar. Upplifun hvers konar er nú sem aldrei fyrr sífellt mikilvægari kjarni tilveru mannfólksins, ekki síst aldamótakynslóðarinnar. Efnishyggjan í hinum hefðbundna skilningi fær að lúta í lægra haldi og þessi staðreynd speglast m.a. í þeirri ört vaxandi atvinnugrein sem ferðaþjónustan er á Íslandi.

Þráin eftir norðurljósum, hvölum, dramatísku landslagi, jarðhitaböðum og séríslenskum aðstæðum er viðvarandi búhnykkur á meðan hefðbundin verslun, gistiþjónusta og veitingamennska heldur sínu en vex e.t.v. eilítið hægar en vænta hefði mátt miðað við hinn augljósa vaxandi fjölda gesta. Aðrir, sumpart minna áþreifanlegir þættir virðast komnir til að vera.

Miðborg Reykjavíkur er nú sem fyrr fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og þar hefur flóra upplifunarmöguleikanna vaxið og dafnað sem aldrei fyrr. Í miðborginni er að finna ótrúlega fjölbreytni og þá ekki síst á sviði lista og skapandi greina. Tugir hátíða af ýmsum toga laða að þúsundir og það er nánast sama hvar drepið er niður; Fjölbreytileikinn speglast í margþættri tónlist, myndlist, leiklist, ritlist, kvikmyndalist, danslist og alls konar list hins mögulega.

Harpan heldur áfram að laða til sín fleiri gesti frá ári til árs og listasöfn miðborgarinnar bjóða upp á metnaðarfullar sýningar í smærri og stærri sölum: Nýlistasafnið, I8 gallerí og Kling og bang í Marshallhúsinu á Granda, Listasafn Reykjavíkur við Tryggvagötu, Listasafn Íslands við Fríkirkjuveg, Listasafn Einars Jónssonar á Skólavörðuholti, Þjóðminjasafnið við Suðurgötu, Kjarvalsstaðir við Flókagötu, Gallerí Fold við Rauðarárstíg, gallerí Ófeigs við Skólavörðustíg , Gallerí Dead á Laugavegi Pönksafnið í Bankastræti og fjöldi smærri gallería á borð við Art 67 á Laugavegi, Gallerí Símón við Geirsgötu og svo mætti lengi telja.

Hefur þá einungis verið tæpt á nokkrum flaggskipa myndlistarinnar. Aðrar skapandi greinar eiga vissulega einnig sín musteri og sína kima sem laða og lokka, gleðja og göfga.

Að kynna sér allt litróf listarinnar í miðborginni er viðvarandi og síbreytilegt verkefni – í senn afar spennandi og órjúfanlegur hluti af því sem upp var lagt með hér í fyrstu málsgrein: Listinni að lifa.

 

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.