Matarhátíðin Food & Fun verður haldin með pompi og prakt dagana 6.- 10. mars næstkomandi. Hátíðin er haldin í 21. skipti og hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn girnilegasti viðburðurinn í menningarlífi miðborgarinnar. Hátíðin hefur vakið mikla athygli fyrir skemmtilegt og spennandi samstarf íslenskra veitingastaða og erlendra gestakokka þar sem íslensk hráefni og gæði eru í hávegum höfð.
Gestir hátíðarinnar geta því búist við fjölbreyttri matarupplifun sem endurspeglar þá gríðarlegu flóru veitingastaða sem Miðborgin Reykjavík hefur upp á að bjóða. Til að bóka borð eða fyrir nánari upplýsingar um hátíðina þá er hægt að finna það hér: https://www.dineout.is/foodandfun
Markaðsfélag Miðborgarinnar kynnir með stolti sína aðildarfélaga og þá veitingastaði sem taka þátt í hátíðinni í ár.
_____________________
Matarvegferð Hugo Orzoco hófst í verslun fjölskyldu hans í Guadalajara, Mexíkó, þar sem æska hans mótaðist að miklu leyti af upplifunum í kringum mat. Hugo er að mestu sjálflærður, og var hans fyrsta reynsla af veitingabransanum þegar hann þjónaði til borðs á Riviera Nayarit, en fljótlega fann hann sig í eldhúsi veitingastaðarins.
Hugo stofnaði síðar meir veitingastaðinn La Slowteria í Guadalajara, þar sem hann sótti innblástur í aldagamlar matarhefðir svæðisins og færði yfir í nútímalegri búning. Öll matseld á La Slowteria hefur sjálfbærni að leiðarljósi og að sækja hráefni í nærumhverfið.
Hugo ákvað svo að taka La Slowteria á ferðalag og opnaði staðinn fyrst í Tulum, og síðar meir í Carroll Gardens í Brooklyn, New York. Í Brooklyn fann hann sinn samastað og þróaði veitingastaðinn í átt að bragðlaukum borgarbúa sem lofuðu hvert einasta taco sem hann reiddi fram.
Nú heldur Hugo til á veitingastaðnum Viva Verde þar sem hann leggur áherslu á heimilislegan mat þar sem litríka mexíkóska sköpunargleðin fær sannarlega að njóta sín.
_____________________
Michelin matreiðslumaðurinn Oscar er einn af frumkvöðlum matarsenunnar í Lucerne. Hann er uppalin á Spáni og í Portúgal og þegar hann var 17 ára fékk hann tækifæri til að læra á hinum goðsagnakennda veitingastað “El Bulli”. Matreiðsla hans er litrík blanda af uppvaxtarárum hans á Spáni, og áhrifum af ferðalögum hans á austari slóðir. Hann hefur starfað í Swiss í yfir 20 ár og árið 2018 opnaði hann sinn eigin veitingastað, ásamt Nadine Baumgartner, og hlaut bæði Michelin stjörnu og viðurkenningu GaultMillau, eins virtasta matartímariti heims, þar sem hann hlaut eina hæstu einkunn sem tímaritið gefur.
_____________________
Fiskmarkaðurinnn opnaði árið 2007 og hefur notið mikilla vinsælda allar götur síðan. Leitast er við að bjóða gestum hágæða afurðir úr fersku íslensku hráefni, í bland við kraftmikið og hlýlegt andrúmsloft, enda hefur Fiskmarkaðurinn notið mikilla vinsælda allt frá opnun. Vel er fylgst með stefnum og straumum í matreiðslu og höfum við í raun aldrei verið betri en akkúrat núna!
Victor Planas gæti verið mörgum sólarþyrstum Íslendingur kunnugur, en hann er yfirkokkur og einn eigenda á einum besta veitingastað Tenerife, Kensei Contemporary Japanese á Hotel Bahía del Duque. Á Kensei fá gestir að njóta sérfræðikunnáttu Victor á japanskri matargerð í bland við sköpunargáfu innblásinni úr nærumhverfinu. Victor leggur mikla áherslu á að nota eingöngu besta hráefni sem völ er á þegar kemur að því að skapa rétti sem heiðra bæði hefðbundna og nýstárlega japanska matreiðslu.
_____________________
Við erum hrikalega spennt að taka á móti yfirmatreiðslumanni Sexy Fish í London Mattia Ricci. Sexy Fish er af mörgum talinn vera flottasti veitingastaður Lundúna, en einnig hafa opnað Sexy Fish veitingastaðir í Miami og nú nýverið í Manchester. Sexy Fish veitingastaðirnir eru jafn þekktir fyrir útlitið og þeir eru fyrir matseld, en þegar kemur að hönnun staðanna og upplifun gesta er engu til sparað.
_____________________
Jonathan Morales er yfirkokkurinn á veitingastaðnum Carbon í París. Hann hóf feril sinn sem Chef de Partie, en fljótlega var farið að taka eftir hæfileikum hans og sköpunargleði og hann vann sig fljótt upp þar til hann tók við stöðu aðstoðarkokks á veitingastaðnum Cantina í París, áður en hann færði sig yfir í stöðu yfirkokks á Carboni’s. Sem yfirkokkur á staðnum hefur Jonathan verið lykilaðili í að móta upplifunina á Carbon með því að koma á framfæri hans einstöku aðferðum við að blanda saman hefðbundinni matargerð við nútímalega. Undir hans leiðsögn hefur Carbon haldið áfram að þróast í hinar ýmsu áttir, og nýverið breytti staðurinn um gír og færði sig yfir í ítalska matargerð undir heitinu Carboni’s. Árangur Carbon og Jonathan hefur haldist vel í hendur og á stuttum tíma hefur Jonathan náð að skapa sér nafn sem einn af mest spennandi kokkum Parísarborgar.
Með Jonathan kemur Sabrina Goldin, eigandi og heilinn á bakvið útlit veitingastaðarins og upplifun gesta. Á meðan Jonathan leikur listir sínar í eldhúsinu má finna Sabrina í salnum að halda partýinu gangandi og tryggja það að allir njóti til hins ýtrasta.