Sundhöllin opnaði á ný eftir endurbætur í desemberbyrjun og hafa vinsældir hennar farið sífellt vaxandi síðan. Hinni nýju útilaug er ætlað að létta álaginu af Vesturbæjarlaug og Laugardalslaug en ásókn í þær hefur aukist mjög á síðastliðnum árum. Haft er eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að sannkölluð heilsulind hafi verið opnuð í Miðborginni sem íbúar þar ættu eftir að njóta. Sundhöllin var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni arkitekti sem þá starfaði sem Húsameistari Ríkisins. Hún þykir eitt af hans bestu verkum og því þurfti að vanda vel til verks. Það voru arkitektarnir Ólafur Óskar Axelsson og Karl Magnús Karlsson hjá VA arkitektum sem hönnuðu viðbygginguna sem þykir hafa heppnast einstaklega vel þar sem hún tekur bæði mið af höfundarverki Guðjóns Samúelssonar og skyggir ekki á aðalbygginguna.