Októberhátíð á Löngum laugardegi 3.október

N.k. laugardag 3.október verður mikið um að vera í miðborginni. Ekki aðeins hefðbundinn Langur laugardagur líkt og tíðkast fyrsta laugardag hvers mánaðar, heldur verður blásið til sérstakrar Októberhátíðar í miðborginni, þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að gæða sér á margs konar ljúfmeti, innlendu sem erlendu, föstu sem fljótandi.

Hér er um að ræða skemmtilega blöndu af íslenskri sveitamenningarhátíð í anda töðugjalda og svo þýskættaðri gleðihátíð eins og margir kannast við.

Ali, MS, Bananasalan, Ölgerðin, Ostabúðin o.fl. leggja sitt af mörgum til að Reykvíkingum og nærsveitamönnum gefist kostur á að spóka sig um á Laugavegi, Skólavörðustíg, Kvos, Gömlu höfn og Granda og smakka á miðborginni í fyllste merkingu þess orðs. Fjölmörg veitingahús munu spinna út frá sama stefi og auk þess verða margar verslanir með sértilboð og eigin uppákomur þennan dag.

Þá munu harmonikkur hljóma og blásturshljóðfæri óma víða um miðborgina – það er jú verið að blása inn sjálfan október!

Það er fleira á döfinni í október hjá Miðborginni okkar. Fimmtudagskvöldið 8.október kl. 20:00 verður síðan opinn fundur um miðborgarmál með sjálfum borgarstjóranum í Reykjavík, Degi B. Eggertssyni. Fundurinn verður haldinn á hinum nýja glæsilega veitingastað Bergsson í Sjávarklasanum á Grandagarði 16 , Granda. Þar verður til umræðu allt er varðar miðborgina að nóttu sem degi. Fleiri gestir verða kynntir á næstu dögum.

Þá verður Bleikur október haldinn hátíðlegur í miðborginni fimmtudagskvöldið 15.október og þá jafnframt opið til kl. 22:00 í fjölmörgum verslunum. Rekstraraðilar eru hvattir til þess að lýsa og skreyta með bleiku í október og sýna þannig stuðning við mikilvæga , árlega og aðdáunarverða vitundarvakningu Krabbameinsfélagsins.

Þá er tónlistar- og menningarlíf jafnan í miklum blóma í miðborginni á þessum árstíma og hefur tónleikahald í miðborginni t.a.m. tvöfaldast frá árinu 2010. Það verður alltént engin ládeyða í hjarta borgarinnar á næstu vikum og mánuðum!

Meðfylgjandi mynd er frá Októberhátíð Miðborgarinnar okkar 2014 en þá lögðu ýmsir heilmikið á sig til að klæðast á viðeigandi hátt.

 

photo-3 (1)sagolika-recept
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík