Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri lýsti þeirri skoðun sinni nýverið að Ísland hefði verið hernumið af ferðaþjónustunni. Þó okkur beri að fagna sívaxandi áhuga erlendra ferðamanna á Íslandi og þeirri veltuaukningu sem slíkt hefur í för með sér, ber að taka orð landgræðslustjóra alvarlega og ígrunda sannleiksgildi þeirra. Einnig mætti velta fyrir sér hvort heimfæra beri líkingarmál landgræðslustjóra á miðborg Reykjavíkur í ljósi þess að þangað leggur leið sína langstærstur hluti þeirra sem á annað borð sækja landið heim.
Eitt er víst að þær afleiður vaxandi ferðamannastraums sem stórauknar byggingarframkvæmdir eru, hafi mjög sett svip á hjarta miðborgarinnar á undanförnum mánuðum og misserum. Umtalsvert rask á götum og gangstéttum hefur í för með sér óþægindi og álag á þá sem leggja vilja leið sína um helstu götur miðborgarinnar og ekki síst þá sem stunda rekstur t.d. á Laugavegi og Hverfisgötu. Árekstra og pústra hefur reglubundið orðið vart milli byggingarverktaka og þeirra sem starfa eða búa við umræddar götur. Einstakir byggingarverktakar hafa orðið uppvísir að því að ganga um með ógnandi hætti og hótunum ef rekstraraðilar kvarta yfir ítrekuðum brotum á reglum er varða t.d. götulokanir vegna framkvæmda á verslunartíma, að skrúfað sé fyrir vatn eða rafmagn án viðvörunar, aftengd séu bræðslukerfi gangstétta að ekki sé talað um truflanir af völdum loftbora og annarra hávaðasamra þátta.
Nú liggur fyrir að sumir umræddra verktaka hafa verið hnepptir bak við lás og slá. Á meðan eru fyrirheit um verklok, endurheimtur bílastæða og þolanlegrar hljóðvistar ítrekað þverbrotnar, s.s. við Laugaveg og Frakkastíg.
Óhjákvæmilegt er að grípa til dagsekta og annarra aðgerða ef menn sjá ekki að sér og halda áfram að hunsa tilverurétt þeirra sem búa og starfa í námunda við hinar hljóð- og plássfreku aðgerðir verktaka og undirverktaka í miðborginni. Framkvæmdaaðilar hljóta jafnframt að endurskoða í ljósi frétta sl. viku hvort framvegis sé stætt á að taka lægstu tilboðum aðila á borð við þá sem nú gista tugthús landsins. Afleiðingar slíks blasa við og bitna á öllu miðborgarsamfélaginu.