Hárgreiðslustofan á Klapparstíg er elsta hárgreiðslustofa landsins en aðeins eitt ár vantar uppá að stofan verði hundrað ára. Sá dagur mun víst ekki renna upp því í lok dagsins í dag lokar stofan í síðasta sinn. Ein af sérstöðum stofunnar er að bjóða uppá þjónustu án tímapantana en þeir sem kunna vel því fyrirkomulagi þurfa ekki að örvænta þar sem þrír starfsmenn stofunnar; Ellert Birgir Ellertsson, Sonja Guðrún Ásgeirsdóttir og Þuríður Ævarsdóttir færa sig um set yfir á Hársnyrtistofuna Sandro, Hverfisgötu 49. Miðborgin Okkar tók Ellert tali:
“Ég er búinn að vinna hérna í átta ár, þ.e. á morgun, 1. apríl, þá eru komin akkúrat átta ár síðan ég byrjaði hérna fyrst. Þetta er elsta stofan á landinu, hún var stofnuð fyrst árið 1918 svo þetta er orðinn góður tími. Hún hefði orðið hundrað ára eftir eitt ár”
Nú finnst mörgu fólki þægilegt að þurfa ekki að panta tíma. Ætlið þið að halda því áfram á Sandro?
“Já við ætlum að halda áfram með sama fyrirkomulag. Það verður bæði hægt að panta tíma en líka að droppa bara inn”
Kemurðu til með að sakna þessarar stofu?
“Já ég mun gera það. Gamla Reykjavík er að breytast svo mikið. Allt þetta gamla og upprunalega er á hröðu undanhaldi. Virðist bara allt vera að hverfa, sem er mikil synd.”
Ykkar fastakúnnar hér geta þá núna snúið sér á nýjan stað?
“Já, þá eru þeir bara velkomnir á nýjan stað. Við byrjum bara eftir helgina á nýja staðnum.”