“Röndóttir” opnunartímar í miðborginni

Opnunartími verslana miðborgarinnar um páska mótuðust til skamms tíma af vilja kirkjunnar manna sem speglaðist í reglugerðum sem lögreglan í Reykjavík leitaðist löngum við að framfylgja. Á þessu hefur orðið umtalsverð breyting á undanförnum árum. Þeir dagar sem til þessa hafa verið “rauðir” dagar í dagatali Miðborgarinnar okkar eru nú í besta falli “röndóttir” , því vaxandi fjöldi verslunareigenda kýs að koma til móts við nýjan raunveruleika ferðamannastraums sem árlega hefur aukist um 15% -30% sl. á undanförnum árum. Þannig er ekki lengur skrifað í stein að Skírdagur, Föstudagurinn langi, Páskadagur eða Annar í páskum séu lokaðir “rauðir” dagar, þó vissulega kjósi margir að fylgja hefðinni.

Það voru verslanir Pennans Eymundssonar og Máls og menningar sem leiddu þessar breytingar í miðborginni með ákvörðun um að hafa opið frá kl. 09:00 til 22:00. Útivistar- og ferðamannaverslanir fylgdu í kjölfarið og fjölmargar aðrar síðan.  Af þessum sökum eru flestar hefðbundnari verslanir lokaðar á Skírdag, Föstudaginn langa, Páskadag og annan í páskum en verslanir sem gera að miklu leyti út á viðskipti við ferðafólk munu vísast hafa opið þessa daga, a.m.k. á Skírdag og Annan í páskum.

Um skemmtanir og öldurhús þessa daga gilda eftirfarandi reglur :

Miðvikudaginn 28. mars: Opið til kl. 03:00 eða 4.30 skv. leyfi.

Fimmtudaginn 29. mars: Skírdagur. Opið til miðnættis.

Föstudagurinn 30. mars: Föstudagurinn langi. Lokað, en má opna á miðnætti og vera opið til kl. 03:00 eða 4.30 skv. leyfi.

Laugardagurinn 31. mars: Opið til kl. 03:00

Sunnudagurinn 1. apríl: Páskadagur. Lokað, en má opna á miðnætti og vera opið til kl. 03:00 eða 4.30 skv. leyfi.

Mánudagurinn 2. apríl: Annar í páskum. Opið til kl. 01:00

Í Guðs nafni. Amen.

 

 

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.